Eiríkur jarðar Vaðlaheiðagöng – Kristján Möller reiður: „Eins mikla þvælu og hugsast getur“

Eiríkur Hjálmarsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Orkuveitu Reykjavíkur og fyrrverandi aðstoðarmaður borgarstjóra, segir að ríkisstjórnin verði að varast það víti sem séu Vaðlaheiðargöng.

„Ekki fara í verkefnið, ágæta ríkisstjórn, ef þú ert ekki tilbúin til að láta samstarfsaðilann fara á hausinn. Ekki fara í verkefnið ef þú ert viss um að samstarfsaðilinn hafi ekki bolmagn til að standa undir sínu. Ekki fara i verkefnið ef samstarfsaðilinn hefur þannig aðgang að pólitískum ákvörðunum að það skipti ekki máli hvort hann stendur við sitt,“ segir hann á Facebook.

Tekur hann svo dæmi frá Reykjavíkurborg um hvernig gera eigi hlutina. „Reykjavíkurborg hefur farið í fjölda skipulagsverkefna með einkaaðilum án þess að sitja uppi með stutta stráið alla tíð,“ segir hann og bætir við að Hvalfjarðargöngin hafi heppnast frábærlega.

„Nú er ögurstund í lærdómi og það væri frábært fyrir okkur skattgreiðendur sem borgum þennan fáránlega Vaðlaheiðarbrúsa (sem vegfarendur áttu að greiða) ef ríkið upplýsti okkur um það hvar nákvæmlega það fór út af sporinu í þessu annars um margt metnaðarfulla verkefni.“

Kristján Möller, sem var ráðherra samgöngumála þegar göngin voru gerð, svarar Eiríki fullum hálsi:

„Hér gefur að lesa eins mikla þvælu og hugsast getur frá manni sem ekkert setur fram nema slggjudóma og hefur greinilega ekkert kynnt sér málið. Kynntu þér málið Eiríkur Hjálmarsson t.d um okurvexti ríkissjóðs til framkvæmdarinnar, kynntu þér líka þau áföll sem urðu á verktímanum ( eða vissir þú kannski um hvað verða vildi inni í fjallinu- eins og svo margir eftirá sérfræðingar landsins) og margt margt fleira sem þú þarft greinilega að lesa þig til um og fá upplýsingar um.“

Kristjáni er mikið niðri fyrir og tekur fyrir framkvæmdir Orkuveitunnar, vinnuveitenda Eiríks:

„Og svona í lokin getur þú nokkuð frætt okkur viðskiptavini Orkuveitu Reykjavíkur og Co um kostnaðinn við höfuðstöðvar ykkar? þ.e. þarna stóra myglu húsið. Tókst það ekki allt saman vel, var við kostnaðaráætlun og ekkert viðhald- eða hvernig standa málin kæri ven og félagi verkamaður upplýsingafulltrúi OR?“

Eiríkur svaraði: „Af því þér og sumum fleirum finnst það skipta máli í málefnalegum umræðum um Vaðlaheiðargöng hvar ég starfa þá höfum við kappkostað að halda almenningi upplýstum um tjónið með því að birta matgerð á því hér: https://www.or.is/.../1121/Matsgerd_OR_husid_undirritud.pdf og útbætur vegna þess, m.a. hér: https://www.or.is/um-or/endurbygging-baejarhalsinum/