Einstaklega fallegt listamanns heimili með stórfenglegu útsýni

Í þættinum Matur og Heimili í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar listrænt heimili og vinnustofu Margrétar Jónsdóttur leirlistakonu en Margrét býr og starfar á Akureyri. Húsið sem hún býr í er teiknað af föður hennar fyrir aðra fjölskyldu en fyrir liðlega tíu árum var Margrét svo heppin að eignast það. Húsið stendur á fallegum stað á hæðinni þar sem útsýnið er stórfenglegt til allra átta. Heimilið hennar er engu öðru líkt þar sem fallegir munir eftir hana kallast á við náttúrulega jarðliti og notaða hluti.

IMG_0191.jpg

Margrét hefur ávallt vita hvað hún vildi gera í lífinu. Hún fór ung til útlanda í nám en útskrifaðist sem leirlistakona árið 1985. „Í Danmörku stundaði ég nám við listiðnaðarskólann í Kolding. Nú þegar ég hugsa til baka þá finnst mér áhugavert hvað ég var ákveðin í því að feta þessa braut og hvað ég sýndi mikið sjálfstæði með því að fara svona ung af stað.“

Hún er með ákveðinn heimilisstíl sem er einstakur á svo margan hátt og lýsir hennar persónulega stíl svo vel. Ljósir litir, jarðtónar og gamlir munir eru eitthvað sem minnir á hana.

„Mér þykir líka svo vænt um hluti sem eiga sér sögu og eru úr fjölskyldunni. Ég leyfi þeim að njóta sín á heimilinu og sumir hafa fengið andlitslyftingu,“ segir Margrét sem er umvafin hlýju og rómantík á heimili sínu á hennar einstaka listræna hátt.

IMG_0182.jpg

Margrét er að margra mati með einstakan smekk og leirlistaverkin hennar eru víða um heimilið hennar. Hún leyfir hlutunum að sjást og njóta sín, raðar þeim svo skemmtilega upp og á öðruvísi máta.

Margrét er einnig með gallerí og vinnustofu á Akureyri í nánd við höfnina þar sem sköpunarhæfileikar hennar fá að njóta sín. Ástríða Margrétar liggur í leirlistinni og hver hlutur er sérstakur. Margrét vill hafa fingrafar sitt á hverjum og einum hlut.

IMG_0244.jpg

Áhugaverð og skemmtileg heimsókn Sjafnar til Margrétar leirlistakonu í þættinum Matur og heimili í kvöld klukkan 19.00 og aftur klukkan 21.00 á Hringbraut.

Hægt er að sjá brot úr þætti kvöldsins hér: