Einn af stofnendum Iceland Express segir Icelandair hafa misst af lestinni fyrir löngu

„Árið 2002 fékk Icelandair gullið tæki­færi til að lækka rekstrar­kostnað og búa sig undir vaxandi sam­keppni,“ segir Ólafur Hauks­son, al­manna­tengill og einn af stofn­endum Iceland Express.

Ólafur skrifar grein á vef Vísis sem vekur nokkra at­hygli, en þar segir hann að Icelandair hafi gert af­drifa­rík mis­tök fyrir 18 árum, eða um það leyti sem Iceland Express var stofnað.

Ólafur bendir á að með lægri kostnaði og sveigjan­leika í rekstri hafi Iceland Express getað boðið lægri far­gjöld en Icelandair. Hann segir að þessi nýja sam­keppni hafi í raun verið góð á­stæða fyrir stjórn­endur Icelandair „að taka fram hlaupa­skóna og hrista af sér spikið“.

„En í stað þess að grípa þetta tæki­færi til að læra að starfa í sam­keppnis­um­hverfi, þá lögðust stjórn­endur Icelandair í kostnaðar­samasta undir­boð Ís­lands­sögunnar til þess að drepa af sér nýja keppi­nautinn. Frá hausti 2002 til haustsins 2004 tapaði Icelandair 25 milljörðum króna í far­þega­tekjum vegna far­gjalda sem voru langt undir raun­kostnaði. Þau voru lægri en hjá lág­far­gjalda­fé­laginu,“ segir Ólafur.

„Dýr drápsferð“

„Þessi dýra dráps­ferð bar þann árangur að Icelandair gat bolað stofn­endum Iceland Express frá fé­laginu til að losna við sam­keppnina. Fyrr­verandi stjórnar­maður og hlut­hafi í Icelandair keypti Iceland Express fyrir fá­einar krónur. Ekki leið á löngu þar til bæði flug­fé­lögin voru búin að stilla saman strengi í Öskju­hlíðinni og hætt með lágu far­gjöldin,“ segir Ólafur.

Eins og flestum er kunnugt rær Icelandair nú líf­róður og er það ekki síst á­standinu á heims­vísu um að kenna vegna CO­VID-19 far­aldursins. Ólafur vill þó meina að vanda­mál Icelandair séu í grunninn mun eldri.

„Á­tján árum síðar er Icelandair að niður­lotum komið. Fé­lagið á sér enga fram­tíð nema verða sam­keppnis­fært í kostnaði. Það væri ekki aðal­vandinn núna ef tæki­færið sem bauðst árið 2002 til að venjast sam­keppni hefði verið nýtt.“

Hræddir karlar

Ólafur segir að síðari tíma tæki­færi hafi ekki heldur verið nýtt nema að litlu leyti. Icelandair sitji uppi með að kostnaður á hvert flogið sæti grafi undan getu þess til að takast á við al­vöru sam­keppni.

„Á árinu 2018 var þessi kostnaður 30-40% hærri en hjá WOW og 300% hærri en hjá Wizz. Auð­vitað eru þessi flug­fé­lög ekki að öllu leyti sam­bæri­leg eða flug­leiðir þær sömu, en munurinn er sláandi.“

Ólafur vandar fyrr­verandi stjórn­endum Icelandair ekki kveðjurnar í pistli sínum, en tekur þó skýrt fram að „þessir mis­lukkuðu stjórn­endur“ á þeim tíma sem hann nefnir séu löngu farnir frá Icelandair.

„Fyrir 18 árum var Icelandair ó­hemju ó­heppið með stjórn­endur. Hræddir karlar sem sáu ekki út­fyrir skrif­borðs­hornið og töldu Ís­lendingum hollast að Icelandair héldi á­fram að okra á þeim um aldur og ævi. Þeir sögðust fagna sam­keppninni, en óttuðust ekkert meira. Þeir eyði­lögðu tæki­færið til að gera Icelandair sam­keppnis­hæft til fram­tíðar og sólunduðu ævin­týra­lega háum fjár­hæðum til þess.“

Mynd: Til vinstri er Jóhannes Georgsson sem var framkæmdastjóri Iceland Express og Ólafur Hauksson sem var talsmaður félagsins. Báðir komu að stofnun félagsins á sínum tíma.