Einn af fimm höfnuðu Bjarna – Vilhjálmi hafnað alfarið

Síðustu tölur liggja fyrir úr prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í haust.

Baráttan var hörð um annað sætið. Jón Gunnarsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, varð í öðru sæti. Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður, sem var í öðru sæti í síðustu kosningum lenti í því þriðja. Þingmaðurinn Óli Björn Kárason lenti í fjórða sæti. Arnar Þór Jónsson, dómari, hafnaði í því fimmta.

Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og fjármálaráðherra, hafnaði í fyrsta sæti, var hann sá eini sem sóttist eftir því.

Alls sóttust tólf frambjóðendur eftir sæti á listanum, en í prófkjörinu var valið í sex sæti. Talin voru 4772 atkvæði, þar af voru 64 ógild. Hér að neðan má sjá stöðu efstu sex frambjóðenda í prófkjörinu:

Í fyrsta sæti með 3.825 atkvæði í fyrsta sæti er Bjarni Benediktsson.

Í öðru sæti með 1.134 atkvæði í fyrsta til annað sæti er Jón Gunnarsson.

Í þriðja sæti með 1.616 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti er Bryndís Haraldsdóttir.

Í fjórða sæti með 1.950 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti er Óli Björn Kárason.

Í fimmta sæti með 2.261 atkvæði í fyrsta til fimmta sæti er Arnar Þór Jónsson.

Í sjötta sæti með 2.617 atkvæði í fyrsta til sjötta sæti er Sigþrúður Ármann.

Vilhjálmur Bjarnason, sem sóttist eftir öðru til þriðja sæti, var alfarið hafnað af kjósendum Sjálfstæðisflokksins. Talsverður meðbyr virtist vera með framboði hans og vakti hann töluverða athygli, ekki síst með hjálp Stuðmannanna Agli Ólafssyni og Jakob Frímanni Magnússyni á lokametrunum. Vilhjálmur var langt frá markmiði sínu og náði ekki í topp sex á listanum.

Þá náði Guðbjörg Oddný Jónasdóttir, varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, heldur ekki inn á topp sex, en hún hafði fengið þónokkrar stuðningsyfirlýsingar í kringum sína kosningabaráttu.

Eins og áður segir hlaut flokksformaðurinn Bjarni Benediktsson rúmlega 3.800 atkvæði af 4.772. Meira en 60 atkvæði voru ógild. Þýðir þetta að nærri 900 Sjálfstæðismenn í kjördæminu settu Bjarna ekki í fyrsta sæti, eða nærri einn af hverjum fimm. Þar sem um er að ræða meira en 80 prósent stuðning í fyrsta sætið ætti Bjarni þó vel að una.