Einbeittur brotavilji

Þegar sjávarútvegsráðherra skilaði loks skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi – átta mánuðum eftir að Alþingi óskaði eftir henni – kom í ljós að skýrslan var í raun lítið annað en orðhengilsháttur, útúrsnúningur og blekkingar. Spurningum Alþingis er í raun og veru ekki svarað og að auki farið með rangt mál.
Sjávarútvegsráðherra og/eða þeir sem unnu skýrsluna fyrir hann vísar í persónuverndarlög og þau sögð standa í vegi fyrir því að heimilt sé að svara spurningum Alþingis. Þetta notar ráðherrann sem afsökun fyrir því að engu er svarað um raunverulega eign útgerðarfyrirtækja á fyrirtækjum í óskyldum rekstri, raunverulega eigendur eða krosseignartengsl.
Nú hefur starfandi forstjóri Persónuverndar stigið fram og hafnað þessari röksemd ráðherra með öllu. Ekkert í persónuverndarlögum standi í vegi fyrir því að upplýst sé um hlutafjáreign lögaðila. Jafnframt bendir forstjórinn á að Sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki borið þetta mál undir Persónuvernd.
Vinnubrögð af þessu tagi eru óboðleg á æðsta stigi stjórnsýslu á Íslandi. Óþolandi er að framkvæmdavaldið beiti útúrsnúningum, rangfærslum og hótfyndni til að halda upplýsingum frá Alþingi, æðstu stofnun þjóðarinnar. Erfitt er að sjá mun á þessum vinnubrögðum Kristjáns Þórs Júlíussonar og því þegar uppvíst varð um að Gylfi Magnússon, þáverandi viðskiptaráðherra, sagði gegn betri vitund úr ræðustóli Alþingis að ekki væri til staðar lögfræðiálit í ráðuneyti hans um að gengisbundin lán væru ólögmæt. Vegna þerra ósanninda gagnvart þinginu varð Gylfi að víkja úr ráðherrastóli.
Nú er ljóst að Kristján Þór Júlíusson hverfur úr ráðherrastóli þegar ný ríkisstjórn verður mynduð eftir kosningar en spyrja má hvort skárra sé að fara með rangt mál í skriflegri skýrslu til Alþingis en að segja ósatt úr ræðustóli þingsins? Brotaviljinn virðist alla vega vera einbeittur í báðum tilfellum.
- Ólafur Arnarson