Einar: Veðrið líkara því sem gerist í nóvember

„Þessi vika stefnir í að verða sér­lega köld miðað við árs­tíma. Margir lands­menn hafa horft til til grárra fjalla og sums staðar fyrir norðan og austan hefur snjóað í byggð.“

Þetta segir Einar Svein­björns­son veður­fræðingur á Face­book-síðu Bliku. Á Bliku má nálgast veður­spár næstu daga og ýmsan fróð­leik um veðrið.

Einar segir í færslu sinni að 10 daga spá um meðal­stöðu há­loftanna og frá­vik loft­massa­hita séu nokkuð af­gerandi. Hann segir að reikna megi við að hiti verði að jafnaði þremur til sex gráðum undir meðal­lagi árs­tímans og þá má gera ráð fyrir að víða verði nætur­frost, einkum norðan­til. Þá verði hiti ekki nema tvö til þrjú stig að deginum.

„Nær nóvemberveðri heldur en septem­ber. Á Akur­eyri hefur septem­ber verið sæmi­lega hlýr, en hætt er við að kaldur síðasti þriðjungurinn breyti þeirri mynd um­tals­vert.“

Hér að neðan má sjá veður­spá næstu daga sam­kvæmt vef Veður­stofu Ís­lands:

Á mið­viku­dag:
Norð­læg átt 8-15 og dá­lítil rigning S-til, en él fyrir norðan. Mun hægari um landið NA-vert. Hiti 0 til 5 stig, en í kringum frost­mark fyrir norðan.

Á fimmtu­dag:
Norð­læg átt 5-10 m/s og dá­litlar skúrir eða él N-lands, en víða létt­skýjað um landið S-vert. Hiti 1 til 7 stig yfir daginn, mildast syðst.

Á föstu­dag:
Vaxandi suð­austan­átt og fer að rigna S- og V-lands seinni­partinn, en bjart NA-til. Hlýnandi veður.

Á laugar­dag:
Suð­læg átt og rigning, en úr­komu­lítið á N- og A-landi. Hiti 7 til 12 stig.

Á sunnu­dag:
Út­lit fyrir suð­vest­læga eða breyti­lega átt og dá­litlar skúrir, en rigningu austast. Hiti 4 til 9 stig.

KALDIR HAUSTDAGAR - LÍKARA NÓVEMBER Þessi vika stefnir í að verða sérlega köld miðað við árstíma. Margir landsmenn...

Posted by Blika on Mánudagur, 21. september 2020