Einar opnar sig upp á gátt: „Ég hef stund­um keyrt upp í sveit bara til að gráta smá í friði“

„Þetta fólk kem­ur síðan heim oft í meiri sál­ar­kreppu en það vill viður­kenna,“ segir Einar Þór Strand, björgunarsveitarmaður til áratuga, sjúkraflutningamaður í Stykkishólmi og slökkviliðsstjóri í Stykkishólmi, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Í grein sinni fjallar Einar um stór áföll, stjórn þeirra og þegar hið daglega viðbragð viðbragðsaðila dugar ekki. Á hann til dæmis við þegar sjálfboðaliðar eru kallaðir til og stjórnkerfi almannavarna, sem er meðal annars samsett af Samhæfingarstöðinni í Skógarhlíð, tekið í notkun.

Í raun enginn sem veltir því fyrir sér

„Ég hef stiklað á stóru um þetta kerfi en minna fjallað um ein­stak­ling­ana sem halda því gang­andi, fólkið sem oft á tíðum hleyp­ur af stað frá fjöl­skyldu, vinnu og ánægju­stund­um þegar kallið kem­ur,“ segir Einar og bætir við að þetta fólk komi svo oft heim í meiri sálarkreppu en það vill viðurkenna.

„Þó svo að flest­ir vinni úr því þá held ég að okk­ar nán­ustu séu oft þeir sem þurfa að bera byrðarn­ar með okk­ur ómeðvitað. Fer það al­gjör­lega fram hjá nærsam­fé­lag­inu og einnig því sem við köll­um rík­is­vald. Vissu­lega höf­um við, sem störf­um í þess­um grein­um, ekki verið mikið að kvarta eða láta í okk­ur heyra og sjálf­boðaliðarn­ir sem ekki ráða við álagið, ja, þeir bara hverfa, og það er í raun eng­inn sem velt­ir því fyr­ir sér.“

Einar segir að eftir því sem hann best veit þá hafi ekki verið rannsakað hvernig fólk í þessum geira hefur það andlega eða hvaða áhrif þetta hefur á lífsgæði þeirra, fjölskyldur og vini.

„Sjálf­ur hef ég starfað í þess­um geira í 45 ár og komið að öll­um hliðum hans nema lög­gæslu. Ég hef verið sjálf­boðaliði í björg­un­ar­sveit­um og hjá Rauða kross­in­um, starfað við sjúkra­flutn­inga og í slökkviliði. Það verður að segj­ast eins og er að áhugi stjórn­valda á viðbragðsgeir­an­um og fólk­inu sem þar starfar er í flest­um til­fell­um mjög lít­ill þó vissu­lega séu und­an­tekn­ing­ar þar á,“ segir Einar sem er persónulegur í grein sinni og opnar sig upp á gátt.

Keyrt upp í sveit til að gráta smá

„Ég hef stund­um farið út heima eða keyrt upp í sveit bara til að gráta smá í friði. Það er ekk­ert endi­lega eft­ir eitt­hvert sér­stakt at­vik, held­ur fer bara maður að hugsa um eitt­hvað þar sem maður hafði þurft að vinna fum­laust og reyna að gera sitt besta en það dugði kannski ekki til. Það sem hjálp­ar manni í gegn­um sorg­ar­stund­irn­ar eru svo gleðistund­irn­ar eins og að fá að vera með í að taka á móti barni. Það versta sem ég hef þó lent í og gerði mig orðlaus­an er þegar full­orðið barn mitt spurði: „Hvers vegna hljópstu alltaf þegar kom út­kall?“ En stund­um varð maður bara að hlaupa af stað þó illa stæði á hjá fjöl­skyld­unni og maður hefði átt að vera til staðar, hlusta og faðma. Kannski var faðmlagið ekki hálfnað þegar ... SOS, bless. Þetta sam­tal kallaði á nokkra bíltúra til að hugsa og, já, gráta.“

Einar segir kjörnum fulltrúum okkar Íslendinga ákveðin skilaboð.

„Látið okk­ur fá þau tæki og búnað sem þarf til að sinna viðbragðsþjón­ustu því álagið á okk­ur sem í þessu erum er nóg þó við þurf­um ekki alltaf að heyra hvað þetta sé dýrt og að við þurf­um að berj­ast með kjafti og klóm fyr­ir hverri krónu. Ef við bara fengj­um bygg­ingarör­ygg­is­gjaldið þá myndi það breyta miklu. Og ekki bara búnað, sýnið okk­ur fá stuðning­inn líka í verki.“

Einar segir svo í grein sinni að það sé stundum rosalega „gaman“ fyrir viðbragðsaðila þegar vel gengur.

„Þá er alltaf ein­hver í góðum stól til­bú­inn að segja hvað þetta hafi verið flott hjá okk­ur. Þegar aft­ur á móti illa geng­ur þá er best að láta hengja þann sem mest hef­ur reynt að ná fram breyt­ing­um og skríða í fel­ur með öll nei-in og glottið, það ger­ist svo sjald­an.“

Einar endar grein sína svo á þessum orðum:

„Þegar ég var að ljúka við þessi skrif varð einn stærsti bruni sem orðið hef­ur á Íslandi í ára­tugi fyr­ir botni Tálkna­fjarðar. Liðið sem þurfti að klára það verk­efni var hlutastarf­andi slökkvilið á lands­byggðinni sem átti langt í næstu aðstoð, meira en 90 mín­út­ur. Þetta slökkvilið og aðrir viðbragðsaðilar á vett­vangi stóðu sig frá­bær­lega. Til ham­ingju, þetta tókst þrátt fyr­ir að sum tæk­in væru eldri en 40 ára.“