Einar og Elvar óhressir með Vöndu: Hálaunuð en fer í felur þegar upp koma vandamál

Íþróttafréttamenn landsins virðast margir hverjir óhressir með Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ.

Ákvörðun sambandsins að víkja Eiði Smára Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfara frá störfum hefur vakið mikið umtal en ákvörðunin var tekin eftir að KSÍ bauð leikmönnum og liðsmönnum í glas eftir tap Íslands gegn Norður-Makedóníu á dögunum.

Einar Örn Jónsson, íþróttafréttamaður á RÚV, steig fram á Twitter í gær og gagnrýndi Vöndu fyrir það að svara ekki fjölmiðlum í gær vegna málsins.

„Hmmmm… Vanda var í vinnunni í dag en vildi bara ekki útskýra risastóra ákvörðun stjórnar KSÍ fyrir fjölmiðlum (og þar með fólkinu í landinu). Gerði sama fyrir ársþingið, neitaði að tala við fjölmiðla. Þetta er ekki einkafyrirtæki heldur opinbert batterí, stærsta sérsambandið,“ sagði Einar Örn á Twitter.

Hann deildi svo mynd frá sendiherra Japans hér á landi þar sem hann stóð við hlið Vöndu á Laugardalsvelli í gær. Einar Örn bætti svo við að það væri sjálfsagður hlutur að svara fyrir það þegar þjálfari væri rekinn. „Og það er það alls staðar nema í musterinu í Laugardal.“

Elvar Geir Magnússon, ritstjóri Fótbolti.net, tók í svipaðan streng á Twitter og sagði:

„Sýnist fótboltahreyfingin þurfa að fara fram á að sett verði inn í starfslýsingu hálaunaðs formanns að hann þurfi að svara en fari ekki í felur þegar upp koma vandamál,“ sagði Elvar. Hann tók svo síðar fram að hann væri líka að vísa til fyrri formanns. Þetta vandamál hefði verið til staðar lengi.

Guðmundur Hilmarsson, íþróttafréttamaður til 30 ára, segir að útlitið sé ekki bjart hjá KSÍ.

„Knattspyrnusamband Íslands er ekki góðum stað og ímynd þess stórlöskuð. Vond og erfið mál búin að dúkka upp trekk í trekk og illa haldið á öllum málum. Starfandi formaður ekki að standa sig vel í þessum nýjustu vendingum og kýs að fara felur. Það er ekki gott.“