Einar missti besta vin sinn: Gerði áhugaverða tilraun til að lengja líf sitt en dó 58 ára

Einar Ingvi Magnússon, áhugamaður um samfélagsmál, lífið og tilveruna, minnist besta vinar síns sem lést fyrir nokkrum árum. Einar skrifar áhugaverða grein í Morgunblaðið í dag.

„Fyr­ir nokkr­um árum lést heim­il­is­lækn­ir­inn minn í Bratislava í Slóvakíu, þá aðeins 58 ára gam­all. Ég naut þeirr­ar gæfu að eign­ast hann sem minn besta vin í heil 15 ár, eða þar til hann lést,“ segir Einar meðal annars í grein sinni og bætir við að læknirinn hafi verið sérstakur maður.

„Heilu stund­irn­ar rædd­um við sam­an um heima og geima á þeim fimmtán árum sem ég naut þeirr­ar gæfu að þekkja þenn­an góða vin. Hann hafði eitt sinn á orði að þegar við næðum átt­ræðis­aldri mynd­um við enn sitja sam­an og spjalla. Ég var þá ekki í nokkr­um vafa um að lækn­ir­inn næði þeim aldri auðveld­lega eft­ir hraust­legu út­liti hans að dæma og heil­brigðum lífs­venj­um hans, en ég var ekki eins viss um sjálf­an mig, sem hafði átt við van­heilsu að stríða í gegn­um árin,“ segir Einar meðal annars.

Hann segir að læknirinn hafi átt bróður sem dó rúmlega fertugur úr hjartaslagi en um var að ræða ættgengan sjúkdóm. Lækn­ir­inn hafi þó verið ákveðinn í að gera til­raun til að lengja líf sitt með sér­stök­um lífs­stíl.

„Hann átti bónda­býli úti á landi og vann sem bóndi þegar hann var ekki á lækna­stof­unni. Hann ræktaði allt líf­rænt, var með hænsni sem gengu laus, kan­ín­ur og tólf bý­flugna­bú. Húsið hans var ein­angrað fyr­ir hættu­leg­um bylgj­um og hann keypti aldrei neitt úr stór­mörkuðum. Hann var hreysti­menni í sjón og ekki sást grátt hár í vöng­um þótt hann væri að nálg­ast sex­tugt. Hend­ur hans voru sigg­grón­ar af bú­verk­um bónd­ans. Hann gekk um ber­fætt­ur á bónda­býli sínu, jafn­vel um vet­ur í snjón­um,“ segir Einar og bætir við að læknastofa vinarins hafi einnig verið vel loftræst með opna glugga, þótt svalt væri úti.

„Ekki vildi hann bólu­setja dótt­ur sína þegar hún var ung­barn og var hún þess vegna barna hraust­ust, að hans sögn. Hún var með óskemmd­ar tenn­ur og hafði aldrei þurft á sýkla­lyfj­um að halda. Hann slátraði fyr­ir hana kan­ín­um og steikti fyr­ir hana lifr­ina úr þeim og gaf henni að borða. Hann vann hörðum hönd­um sem bóndi og sagði að bú­skap­ur­inn væri hin raun­veru­legu verðmæti, en gaf lítið fyr­ir pen­inga úr papp­ír.“

Einar segir að læknirinn og vinurinn hafi ætlað að sigra erfðir sínar með fullkomnu líferni. Þannig hvorki drakk hann né reykti og tók af sér sam­stund­is þau auka­kíló sem ör­sjald­an komu í ljós.

„Yfir vetr­ar­mánuðina borðaði hann svína- og gæsafitu ofan á brauð. Með lík­am­legri vinnu brenndi hann fit­unni en hélt eft­ir D-fjörvanum úr fit­unni, sem var góð vörn við sýk­ing­um. En einn dag­inn fékk minn góði vin­ur hjarta­áfall sem leiddi hann til dauða, sjö árum eft­ir að bróðir hans dó úr sama sjúk­dómi. Hið ótrú­lega hafði gerst,“ segir Einar sem rifjar upp að hann hafi átt erfitt með að trúa að læknirinn væri dáinn. Eiginkona Einars hafði þá að orði að jafnvel læknar lifa ekki að eilífu.

„Til­raun lækn­is­ins er eigi að síður merki­leg og vís­inda­leg. Erfðirn­ar eru sterk­ar. Eng­inn veit hver er næst­ur, þótt haft sé á orði að á mis­jöfnu þríf­ist börn­in best eða ná megi háum aldri með heil­brigðu líferni. Fjörgaml­ir verða sum­ir sem drekka og reykja óspart um æv­ina, því erfðir gefa sum­um mönn­um styrk á við krafta­verk, þótt aðra leggi þær að velli óvænt og mis­kunn­ar­laust. Blessuð sé minn­ing míns elsku­lega vin­ar og heim­il­is­lækn­is. Ímynd heil­brigðis­ins féll að lok­um fyr­ir komu þess sem tek­ur og skil­ar aldrei meir.“