Einar lendir í öðrum netstormi og segist vera „alveg að gefast upp á þessu“

25. nóvember 2020
11:05
Fréttir & pistlar

Skammt er liðið frá því að netverjar gagnrýndu Einar Þorsteinsson, þáttastjórnanda Kastljóssins, fyrir að ganga of hart að Má Kristjáns­syni, yfirlækni smitsjúkdómalækninga á Landspítala, þegar hann var mættur til að ræða hópsýkinguna á Landakoti.

Sjá einnig: Einar svarar eftir um­deilt við­tal: „Ég var bara mjög kurteis og greip lítið frammí“

Viðtal Einars við Brynjar Níelsson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, í gær vakti ekki síður athygli en nú virðist tónninn verða annar. Tilefni viðtalsins var gagnrýni Brynjars á sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda og yfirlýsingar um að hann væri hættur að mæta á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Sakar fólk um tvískinnung

Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, stakk puttanum upp í vindinn og tók upp hanskann fyrir kollega sinn í Efstaleitinu.

„Sama fólkið og taldi Má Kristjánsson lækni grátt leikinn í Kastljósi Ríkissjónvarpsins talar nú um, alveg brjálað að Brynjar Níelsson þingmaður "hafi fengið að koma" í "drottningarviðtal" á sama vettvangi af sama spyrli. Eitthvað í þessu sem ekki gengur upp en ég átta mig ekki alveg á því hvað?“ segir Jakob í færslu á Facebook-síðu sinni.

Í athugasemdum undir færslunni skiptist fólk í tvær fylkingar.

Margir hrukku í kút

Meðal þeirra sem taka til máls er sjálfur Einar Þorsteinsson sem hefur áður greint frá því að tveggja metra reglan komi í veg fyrir að hægt sé að bjóða tveimur viðmælendum í settið til að gæta betur jafnvægis.

Aðspurður um hvort ekki megi gera bragarbót á því með hjálp tölvutækninnar svarar hann því játandi.

„Jú það er hægt. Verra þó í pólitísku debati þegar maður vill að viðmælendur hafi jafnan aðgang að orðinu. En ég er alveg að gefast upp á þessu ef ég á að segja eins og er.“

Til að róa áhyggjusama áhorfendur hafnar hann því þó skömmu síðar að með þessum orðum sé hann að gefa til kynna að hann sé á leið úr Kastljósinu.

„Já nei nei ekkert að gefast upp á Kastljósinu þótt umræðan sé á köflum óvægin. Ég átti við að ég væri orðinn óþreyjufullur eftir því að losna við 2 metra reglu í þættinum,“ segir Einar.

Dyggir áhorfendur virðast því ekki þurfa að horfa upp á breytingar á Kastljósinu í bráð, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Sama fólkið og taldi Má Kristjánsson lækni grátt leikinn í Kastljósi Ríkissjónvarpsins talar nú um, alveg brjálað að...

Posted by Jakob Bjarnar Gretarsson on Tuesday, November 24, 2020