Einar lætur Loga finna fyrir því: „Gangi þér annars allt í haginn nema atkvæðasöfnunin“

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður sendir Loga Einarssyni, formanni Samfylkingarinnar, væna pillu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Þar furðar hann sig á því að Logi hafi útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokki eftir kosningar í haust.

„Við sjálfstæðismenn erum fjórðungur þjóðarinnar. Formaður smáflokks sem telur um 10% Íslendinga telur sér sæmandi að leggja til að við sem erum þannig miklu fleiri en meðlimir Samfylkingar séum útilokuð frá ákvörðunartöku án tillits til þess sem náðst gæti samstaða um við okkur. Þetta er nú skilningur Loga Einarssonar á lýðræði, málefnalegri samræðu og réttindum annarra,“ segir Einar meðal annars.

Hann spyr hvort ekki sé undarlegt að maður sem segist meta mannréttindi öðru ofar láti „þvílíkt og annað eins“ frá sér fara. Hann veltir svo fyrir sér hvað fyrri leiðtogar Samfylkingar og Alþýðuflokks segi við þessu.

„Æskuvinkona mín og bekkjarsystir heitir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Við hana voru samræðustjórnmálin kennd. Marga fleiri vini og kunningja á ég innan þessa flokks. Hvað segja þeir um þessa útilokunarstefnu? Verða þeir (ég nota íslenska málfræði, en ekki nýja kynlausa málið) ekki að tjá sig? Hinn rauði litur kommúnismans var, eðli málsins samkvæmt, einkennandi á þingi flokksins liðna helgi. Það var við hæfi. Samfylkingin er nefnilega ekki lengur sósíaldemókratískur flokkur. Þessi smáflokkur er í ætt við aðra öfgaflokka til vinstri annars staðar í Evrópu,“ segir Einar í grein sinni.

Hann segir að Sjálfstæðismenn vilji ekki útiloka Loga eða hans flokk.

„Þvert á móti teljum við að þú eigir að hafa áhrif í samræmi við fylgi. En við vonum, þjóðarinnar vegna, að það haldist í réttu horfi. Á því eru reyndar allar líkur sem betur fer. En ég virði við þig að þú talar hreint út. Það þarf enginn að velkjast í vafa um að þú aðhyllist öfgafullar vinstrisinnaðar skoðanir sem ekki falla í kramið hjá mörgum. Gangi þér annars allt í haginn nema atkvæðasöfnunin. Af því má aldrei verða að auðlindir Íslands verði færðar Evrópusambandinu að gjöf.“