Einar Jóns­son er látinn: „Hans verður sárt saknað“

Einar Jóns­son, leikja­hæsti leik­maðurinn í sögu meistara­flokks Sel­foss í knatt­spyrnu, er látinn. Einar var 62 ára þegar hann lést en hann var jarð­sunginn frá Sel­foss­kirkju í dag.

Einar var Sel­fyssingum að góðu kunnur enda spilaði hann knatt­spyrnu með liðinu um margra ára skeið. Einnar er enn leikja­hæsti leik­maður liðsins og var fyrir­liði þess lengi vel. Eftir að ferlinum lauk fór hann út í þjálfun og þjálfaði hann bæði meistara­flokk karla og kvenna sem og yngri flokka fé­lagsins. Auk þess var hann virkur í trúnaðar­störfum fyrir fé­lagið og hlaut hann meðal annars gull­merki fé­lagsins og silfur­merki KSÍ.

Einar var húsa­smiður að mennt og starfaði hann sem smiður en einnig sem ráð­gjafi hjá Húsa­smiðjunni.

Andlit félagsins út á við

Einars er minnst á Face­book-síðu knatt­spyrnu­deildar Sel­foss þar sem fram kemur að fé­lagið kveðji nú einn af sínum sterkustu fé­lags­mönnum.

„Ferill Einars sem knatt­spyrnu­maður á Sel­fossi var glæsi­legur. Hann er leikja­hæsti leik­maður Sel­foss frá upp­hafi með 386 leiki en ferill Einars sem leik­maður hófst árið 1974 og spilaði hann sinn síðasta leik fyrir Sel­foss árið 1994.

Sem þjálfari stýrði hann meistara­flokki karla fyrst árið 1992 til bráða­birgða en síðan frá 1995 til 1997 og aftur frá miðju sumri 1998 út tíma­bilið 1999. Einar tók svo í þriðja sinn við liðinu árið 2006 og stýrði fram á mitt sumar 2007. Hann var einnig þjálfari meistara­flokks kvenna árið 1998, auk þess að hafa þjálfað fjölda yngri flokka. Einar sat í stjórn knatt­spyrnu­deildarinnar sem með­stjórnandi frá 1993 til 1996.“

Í færslunni er vísað í við­tal við Einar frá árinu 2005 þar sem hann sagði að hans mark­mið sem ungur drengur hefði verið að spila með meistara­flokki Sel­foss. Hann átti eftir að ná því mark­miði og gott betur.

„Hann var and­lit fé­lagsins út á við, drífandi í starfinu og mikill leið­togi. Á erfiðum tímum í rekstri fé­lagsins stóð hann í stafni með leik­mönnum og lagði allt í sölurnar fyrir fé­lagið, steypti gang­stéttir um bæinn, hellu­lagði stíga við Geysi og teiknaði og byggði fyrstu á­horf­enda­stúkuna við völlinn árið 1993, sem oft hefur verið nefnd Einars­stúka, auk þess að miðla af reynslu sinni til allra og gefa góð ráð.“

Ávallt í fremstu röð

Þá segir að orð sem finna má í um­sögn knatt­spyrnu­deildar, þegar Einar var valinn af­reks­maður deildarinnar árið 1980, lýsi honum jafn vel núna 40 árum síðar. Þar sagði:

„Einar Jóns­son var valinn af­reks­maður deildarinnar, fyrir fram­úr­skarandi dugnað. Árangur liðsins má þakka honum meðal annars þar sem hann var drif­fjöður liðsins, á­vallt hvetjandi sína menn til dáða. Einar er ekki að­eins góður í­þrótta­maður heldur einnig af­bragðs fé­lags­mála­maður, hefur starfað mikið að ung­linga­málum deildarinnar, þjálfað og verið virkur í starfi. Hann hefur á­vallt verið í röð fremstu knatt­spyrnu­manna á Sel­fossi.“

Einar var mikill stuðnings­maður Manchester United og hafði miklar skoðanir á gengi liðsins.

„Elín, eigin­kona Einars, sem lést árið 2013, stóð á­vallt þétt við bakið á honum í fé­lags­starfinu, á­samt börnum þeirra, en þeir Jón Þor­kell og Elías Örn spiluðu með meistara­flokki Sel­foss undir stjórn Einars. Einar vann mjög ó­eigin­gjarnt starf fyrir Sel­foss. Hans verður sárt saknað og við munum minnast hans um ó­komna tíð fyrir störf hans, bæði sem leik­manns og fé­lags­manns. Við kveðjum þennan öfluga liðs­mann okkar með auð­mýkt og djúpu þakk­læti. Sam­fé­lagið okkar á Sel­fossi hefur misst mikið en mestur er þó missir fjöl­skyldunnar. Við sendum börnum hans, öllum ættingjum og vinum, okkar ein­lægustu sam­úðar­kveðjur. Megi þau öðlast styrk til að takast á við sorg sína. Blessuð sé minning okkar góða fé­laga, Einars Jóns­sonar.“

Kveðja frá Knattspyrnudeild Umf. Selfoss Knattspyrnudeild Ungmennafélags Selfoss kveður í dag einn af sínum sterkustu...

Posted by Selfoss Fótbolti on Föstudagur, 7. ágúst 2020