Einar Bárðar með á­kall til þjóðarinnar: „Hjálpum Ör­lygi að komast heim til sín“

Einar Bárðar­son, al­manna­tengill, plokkari og þúsund­þjala­smiður, segir að fleiri lands­menn þurfi að vera eins og hvunn­dags­hetjan Ör­lygur Sigur­jóns­son.

Ör­lygur er einn virkasti plokkari landsins og segir hann að við Ís­lendingar eigi honum mikið að þakka þó að fæst okkar þekki hann. „Síðan grímu­­notkunin fór af stað hefur hann tínt upp úr um­­hverfinu okkar 1.290 stykki af ein­­nota grímum. Þessi eini maður,“ segir hann í grein sinni í Fréttablaðinu í dag.

Einar segir að and­lits­grímurnar hafi reynst okkur á­gæt­lega í bar­áttunni við CO­VID-19. Við höfum verið dug­leg að nota þær og fer um­hverfið okkar ekki var­hluta af því eins og margir hafa ef­laust tekið eftir.

„En það er enginn þarna úti sem hendir grímu viljandi. Þær fjúka út úr bílunum okkar þar sem þær liggja á milli sætanna þegar margar hurðir eru opnaðar í einu í roki. Þær sogast ó­­vart upp úr vösunum okkar þegar við sækjum símann eða lyklana í vasann. Þær fjúka upp úr rusla­­tunnunum á ljósa­­staurunum og fyrir utan fjöl­­sótta staði þegar við pössum ekki nægi­­lega vel að þær fari nógu djúpt ofan tunnurnar.“

Einar nefnir að þetta séu grímurnar okkar og við verðum ein­fald­lega að gera betur. „Það eru ekki ein­hverjir sóðar þarna úti sem henda grímum viljandi. Það er bara ekki þannig og að ýta á­byrgðinni frá okkur sjálfum með þeirri sann­­færingu er ó­­­dýrt og ó­­á­byrgt.“

Einar hefur á síðustu árum komist hægt og hægt að þeirri niður­stöðu að á Ís­landi eru kannski tólf til fimm­tán al­vöru sóðar. „Hitt eru slys hjá vel meinandi fólki, fólki eins og mér og þér. Þess vegna bið ég okkur öll að gæta að grímunni.“

Einar segir að Ör­lygur ætli ekki að hætta í 1.290 grímum, hann ætli ekki að hætta fyrr en um­hverfið er orðið grímu­laust. Hvetur hann alla til að leggja hönd á plóg.

„Hjálpum Ör­lygi að komast heim til sín. Gætum að grímunum. Verum eins og Ör­lygur, byrjum öll á einni grímu á dag. Það eru 365 grímur á mann á ári. Það er 131 milljón gríma ef við gerum þetta öll. Það ætti að leysa þetta.“