Einar Ágúst skildi ekki æsinginn í Mikael: „Hafði ég bangað systur hans?“

Tónlistarmaðurinn Einar Ágúst Víðisson segir að hann skilji ekkert í því hvers vegna hann hafi orðið andlit Dettifossmálsins á sínum tíma. Í viðtali við Mannlíf segir Einar Ágúst meðal annars að hann hafi tekið á sig vörslu 55 gramma af amfetamíni til að einstæð móðir hafi ekki lent í vandræðum.

„Ég var handtekinn 2004 í tengslum við svokallað Dettifossmál. Það var innflutningur á 11 kílóum af amfetamíni og þeir missa af 25 kílóum af hassi, löggan náði því aldrei. Ég var þarna að versla mér eiturlyf. Og er handtekinn með þessu fólki. Restin af öllu fjölmiðlafárinu, fram að því að ég fæ dóminn 2005,“ sagði hann.

Einar Ágúst segir að hann hafi aldrei skilið æsing sem hafi komið í Mikael Torfason, sem þá var ritstjóri DV. Þá hafði Mikael gert heimildarmynd um hljómsveitina Skítamóral, velti „Hafði ég bangað systur hans? Hafði ég stungið undan honum? Ég hlaut að hafa veitt honum eitthvað svöðusár. Það gat ekki verið að vera málaður á forsíðunni sem aðalatriðið í þessum innflutningi. Ég var ekki einu sinni ákærður í þessu máli,“ sagði Einar.

Einar Ágúst segir að hann hafi farið í viðtal við Kristján Guy Burgess, blaðamann DV. Á þeim tíma hafi hann verið á góðum stað í lífinu, verið giftur og vinna á Popp Tíví. „Ég var að vinna á FM957, var með daglegan þátt. Ég var að prófa 10 milljón króna bíla fyrir Ísland í dag, ég vissi ekkert um bíla. Ég spurði Þórhall Gunnarsson hvort hann vildi ekki láta Svala eða einhvern hafa þetta sem veit eitthvað um bíla, Þórhallur var bara svo mikill vinur minn að hann vildi hafa mig þarna,“ segir Einar. Hann hafi boðið DV-mönnum, Kristjáni og Mikael, að fylgja sér eftir í gegnum málið. „Þeir kusu frekar að fara hina leiðina. Þeir kusu frekar að mála mig sem andlit þessa máls.“

Einar Ágúst fer svo inn á annan anga málsins, að hann hafi tekið á sig efnin sem fundust á honum fyrir einstæða móður. Var því lýst í DV árið 2005 að Einar hafi staðið inni í eldhúsi við hliðina á grammavog, hann hafi svo framvísað stórri kúlu úr vinstri buxnavasa, í kúlunni hafi verið rúm 50 grömm af amfetamíni.