Eina sveitarfélagið á Íslandi með engin smit – „Ég vil fara varlega“

„Mér finnst að það eigi að fara að tilmælum sóttvarnalæknis og fara varlega,“ segir Jón Jónsson, sveitarstjórnarmaður í Strandabyggð og þjóðfræðingur, í Fréttablaðinu í dag.

Ekkert einasta Covid-smit er nú í Strandabyggð og sker sveitarfélagið sig úr frá öllum öðrum sveitarfélögum landsins hvað þetta varðar en veiran hefur farið hratt yfir flest byggð ból á landinu undanfarið.

Jón segir í Fréttablaðinu að nokkur smit hafi vissulega komið upp í hreppnum síðan faraldurinn fór af stað. Í þeirri bylgju sem riðið hefur að undanförnu hefur það þó sloppið. Þótt sveitarfélagið sé ekki í hópi hinna fjölmennustu telur Jón það ansi vel sloppið og ankringislegt að íbúarnir séu nú veirufríir.

Í Fréttablaðinu er tekið fram að ef lesendur kannast ekki við orðið „ankringislegt“ getur það merkt undarlegt eða dularfullt og jafnvel haft fleiri merkingar.

Þó nokkuð er um ferðamenn í héraðinu og sætir fyrir vikið að sögn Jóns enn meiri tíðindum að veiran sé ekki sem stendur að höggva skörð í heilsu íbúanna. Sem dæmi nefnir Jón að Galdrasýningin á Ströndum laði að allan ársins hring en sjálfur er hann forstöðumaður safnsins.

Aðspurður hvort það sé töfrum líkast að engin smit séu í sveitarfélaginu, segir hann:

„Mér finnst að það eigi að fara að tilmælum sóttvarnalæknis og fara varlega. Það er tiltölulega nýbúið að bólusetja börn og vantar seinni sprautuna. Best að sem flestir séu bólusettir áður en við sleppum öllu lausu. Ég vil fara varlega.“

Nánar í Fréttablaðinu.