Eigum að geta lágmarkað efnahagslegan skaða ef seinni bylgja faraldurs skellur á

Ýmsir hafa velt því upp að sóttvarnarráðstafanir undanfarið hafi verið of harkalegar og þar með áhrif þeirra á efnahag ríkja. Aðspurður um þetta efni segir Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, það vissulega hafa verið skiljanlegt að gripið hafi verið til mjög hamlandi aðgerða því óvissan hafi verið gífurleg:

„Það er auðvelt að vera vitur núna því þekkingin hefur vaxið á faraldsfræðilegum eiginleikum veirunnar og hvernig megi dempa áhrifin af henni. En í byrjun mars var óttinn mikill. Þetta flæddi yfir heimsbyggðina og erfitt að átta sig á því hvernig hlutirnir voru að gerast. Ef sýkingar gjósa upp núna þá kunnum við miklu betur að takast á við þær og væntanlega mun líka betur vera hægt að einangra efnahagslegu viðbrögðin við það sem annars veldur minnstum skaða fyrir starfsemina í landinu en gagnast á sama tíma best til þess að minnka smithættuna, að ég tali nú ekki um að lágmarka dauðsföll.“

Þetta kemur fram í þætti Björns Jóns Bragasonar Sögu & samfélagi á Hringbraut í kvöld kl. 21.30. Jón Bjarki verður gestur þáttarins og mun fjalla um núverandi samdráttarskeið í ljósi fyrri kreppa. Einnig verður rýnt í nýja þjóðhagsspá Íslandsbanka. Bankinn gerir ráð fyrir 9,2% samdrætti á þessu ári en verðbólga haldist í skefjum og verði ekki nema 2,2%. Meðaltalsatvinnuleysi þessa árs nái áður óþekktum hæði og fari í 9,6% en hratt dragi úr því á næstu tveimur árum. Þrátt fyrir allt séu fjölmargar ástæður til bjartsýni á framtíðina. Stoðir hagkerfisins hafi verið sterkar fyrir skellinn, erlend staða þjóðarbúsins sé góð, gjaldeyrisvaraforði Seðlabankans styðji við krónuna og hið opinbera hafi svigrúm til aukinnar skuldsetningar.