Eigin­konan mærir Gunnar Smára: „Þessu hafa fylgt skuggar“

Alda Lóa Leifs­dóttir, eigin­kona Gunnars Smára Egils­sonar, fram­bjóðanda Sósíal­istal­fokksins, mærir eigin­mann sinn í ein­lægri færslu á Face­book.

Þar segir hún fátt hall­æris­legra en eigin­kona stjórn­mála­manns og tekur fram að hún kjósi sér ekki það hlut­verk. Hún segist ekki hafa ætlað sér að blanda sér í kosninga­bar­áttu Gunnars Smára.

Hún segist þó vera í Sósíal­ista­flokknum og styðja mál­efnið heils­hugar. Alda segir að sér finnist at­hyglin ekki góð.

„En Smári er öðru­vísi. Hans ver­öld er svo stór, svo stór að hann getur alltaf komið mér á ó­vart. Og verandi úr svona stórri ver­öld þá getur hann gefið mörgum von, blásið bar­áttu­anda í heilu herina, málað upp mark­mið sem fjöldi fólks heillast af og hjálpar honum svo við að ná,“ skrifar Alda.

Hún segir eigin­mann sinn hafa gert þetta þegar hann byggði upp Frétta­blaðið, þegar hann bjargaði fjár­hags­stðu SÁÁ, þegar hann breytti Frétta­tímanum í mál­gagn þeirra sem minna mega sín og þegar hann á­kvað einn daginn að stofna Sósíal­ista­flokk Ís­lands.

„Hann gerði þetta auð­vitað ekki einn, en hann er eldurinn sem kveikir upp bar­áttuna,“ skrifar Alda. Hún segir það hafa verið ævn­týra­legt að hafa fylgt þessum manni í meira en kvar­t­öld, enginn dagur sé eins, ný ævin­týri, taka alltaf við og allt hefur svo mikla merkingu. „Þess vegna elska ég Smára. Hann er stór.“

Skrímsla­deildin elt hann

„En þessu hafa fylgt skuggar. Alla þessa öld hefur skuggi Sjálf­stæðis­flokksins og skrímsla­deildar hans legið yfir heimili okkar,“ skrifar Alda. Hann hafi verið út­málaður hættu­legur maður þegar hann var á Frétta­blaðinu og felldi Moggann, grafið hafi verið undan starfi hans í SÁÁ.

„Þegar hann var á Frétta­tímanum var legið í þeim sem komu með honum að blaðinu um að snúa við honum baki. Þegar hann studdi fram­boð Sól­veigar Önnu í Eflingu var hann sakaður um að ætla að ræna sjóðum stétta­fé­lagsins. Og þegar Sanna bauð sig fram til borgar­stjórnar var hún spurð hvernig hún gæti verið í sama flokki og svona vondur maður. Smári þarf ekki einu sinni að vera í fram­boði til að kosningar snúist um hann.“

Hún segir skrímsla­deild Sjálf­stæðis­flokksins hafa elt Gunnar Smára í þessari kosninga­bar­áttu. „Á­stæðan er auð­vitað að þau óttast hann. Þau eru fá sem þola á­líka á­rásir ára­tugum saman og halda á­fram að berjast,“ skrifar Alda.

„Ég hef sjálf oft verið að bugast. Það er ekki gaman að búa á heimili sem er undir linnu­lausum á­rásum valda­mesta fólks landsins. Stundum skil ég ekki hvers vegna það læðist að mér skömm yfir þessu á­standi, eins og við berum á­byrgð á því en ekki of­beldis­fólkið sem kemst upp með að ráðast á og reynir að buga allt fólk sem rís upp gegn valdi þess. Stundum er ég við það að missa trú á sam­fé­laginu. Og ég er þar núna, þar sem ég skrifa þetta. Kannski mun of­beldis­fólkið alltaf vinna. Kannski er von okkar hinna ekki nógu sterk.“