Eiginkona Péturs fann fjársjóð á nytjamarkaði: „Þetta var opnað og svo var googlað“

Flestir ef ekki allir hafa á einum tímapunkti farið í nytjaverslun með það að markmiði að hafa uppi á einhverju verðmætu en oftast finnur maður einfaldlega hluti fyrir heppni.

Pétur Fannberg Víglundsson, verkefnastjóri hjá Rauða kross Íslands, greinir frá því að konan sín hafi mögulega fundið fjársjóð í einni ferðinni. Hann deildi málinu á Facebook síðunni NBA Körfuboltamyndir í kvöld þar sem hann bað um álit.

„Þannig er mál með vexti að konan mín hefur gott auga fyrir verðmætum í second hand verslunum og hún rakst á heilan kassa af Fleer myndum nýlega. Þetta var opnað og svo var googlað,“ segir Pétur en um er að ræða körfuboltamyndir fyrir safnara.

Slíkar myndir má finna á sölusíðum eins og Ebay og eru margar myndir að seljast fyrir háar upphæðir. Pétur segist þó gera sér grein fyrir því að það sé endilega ekki samasem merki milli upphæðar á Ebay og raunverulegs virðis.

„Ég geri mér grein fyrir því að ég gæti allt eins sett skóhornið mitt á Ebay og sett milljón á það en það er ekki það sama og raunveruleg upphæðin sem maður fengi fyrir gripinn (gott skóhorn),“ segir Pétur en hann tekur fram að körfuboltamenn eins og Kevin Durant séu á spjöldunum og því gæti verið um verðmæti að ræða.

„Getur einhver sagt mér hvort ég sitji á gulli eða hvort ég sé einfeldingur,“ spyr Pétur að lokum en óljóst er hvort um verðmæti sé að ræða. 

Óljóst er hvort myndirnar sem eiginkona Péturs fann séu einhvers virði. f