Egill spáir álagi í september: „Sporthúsið verður eins og mauraþúfa“

„Það er enginn með sömmer-body eftir Covid,“ sagði Egill Einarsson, best þekktur sem Gillzenegger, einkaþjálfari og rithöfundur, í þættinum Harmageddon á Xinu í morgun. Hann segist aldrei hafa séð fólk koma jafn illa undan vetri og nú, vísar hann þá til holdafars. „Maður skilur það alveg.“

Egill, sem var á hlaupabretti þegar rætt var við hann, sagði að um sé að ræða alþjóðlegt fyrirbæri. „Gymmin lokuð í sjö mánuði. Það er eitt ef við værum á Tene þar sem eru 23 gráður allan ársins hring, þar er ekkert mál að fara út að hlaupa. Það er lítið um það í okt-nóv á klakanum.“

Mikið er um að fólk byrji í ræktinni í janúar, eftir jólin og oft í tengslum við áramótaheit. Hann telur að svipað, ef ekki margfalt meira, í september næstkomandi. „Ég held að september verði janúar í tíunda veldi. Þetta verður einhver geðveiki. Allir að girða sig eftir 18 mánuði af þessu Covid-rusli. Það verður rosalegt álag. Sporthúsið verður eins og mauraþúfa í september.“

Hann segir fólk bæta á sig á sumrin, það sé tími þar sem enginn fari í fiskbúð því öllum sé sama um mataræðinu. Egill segir að grillinu sé ekki um að kenna, heldur sé það meðlætið. „Þú ferð í grillveislu, þá snakkskálar úti um allt og þessir venjulegu bjórar, eins og að drekka brauð. Það er ekki það sem er á grillinu.“