Egill segir mistök hafa verið gerð – Sigursteinn: „Óþarfi að fara á taugum“

„Nú þarf að sjá hvernig einstaklingsbundnar sóttvarnaraðgerðir og þær reglur sem í gildi hafa verið í eina viku virka og meta það eftir viku eins ákveðið var. Óþarfi að fara á taugum þótt smitum fjölgi tímabundið.“

Þetta segir Sigursteinn Másson fjölmiðlamaður um COVID-19 faraldurinn sem virðist vera kominn á flug hér á landi á nýjan leik. Sautján smit greindust síðasta sólarhring sem er það mesta á einum degi síðan 9. apríl síðastliðinn.

Sigursteinn segir á Facebook-síðu sinni að skoða þurfi vel hvernig veikindin koma fram núna í samanburði við áður. „Í þrjá mánuði hefur aðeins einn lagst inn á sjúkrahús og sú innlögn stóð í þrjá daga. Sýnum yfirvegun, aðgát og skynsemi en forðumst panik- og hræðsluviðbrögð.“

Færsla Sigursteins hefur vakið talsverð viðbrögð og eru margir honum ósammála. Einn þeirra er fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason sem á von á hertari aðgerðum á næstunni.

17 smit í dag og fæstir í sóttkví. Víðir segir að þetta sé orðinn faraldur. Ljóst að skólar byrja ekki nú í ágúst. Og þarf miklu meiri vitneskju til að hægt sé að fullyrða að veikindin séu vægari - ekki hægt að taka áhættu með það. Ísland flýgur brátt inn á lista hááhættusvæða. Ef þetta heldur svona áfram er fátt annað að gera en að endurtaka leikinn frá því í vetur og vor. Því miður. Getur varla talist panik.“

Einn segir við Sigurstein að hans málflutningur sé sá óábyrgi og spyr hann hvaða hagsmuni hann sé að vinna fyrir. Því svarar Sigursteinn: „Mínum hagsmunum sem Íslendíngs einfaldlega.“

Sigursteinn segist enn fremur skilja að fólk sem er kvíðið eigi erfitt þessa dagana en við getum ekki og eigum ekki að láta stjórnast af ótta. Þá segir hann:

„Óttinn og kvíðinn er vissulega nauðsynlegur stundum til að hjálpa okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir en ana ekki út á götu og beint fyrir bíl. Best er ef við getum notað kvíðann rétt til að forðast hættur en afleitt ef við látum stjórnast af honum. Það er vissulega ekki gott að sautján ný smit hafi greinst í gær en bestu viðbrögðin held ég að séu þau að hver og einn passi sig betur, haldi fjarlægð, þvoi hendur og spritti þess á milli. Þetta er ekki flókið. Það er mun betra en að við flýjum inn í hellinn og látum rúlla steininum fyrir hellisopið. Útlendinga andúðin sem birtist í fjandskap gagnvart ferðaþjónustu er hluti af þeirri panik sem gripið hefur um sig í mörgum löndum heims en er í sjálfu sér stórvarasöm þróun. Ekkert bendir til þess að faraldurinn nú hafi nokkuð að gera með erlenda ferðamenn. Það eru margar hliðar á þessu öllu saman sem við munum vonandi skoða og gera upp án upphrópana og ásakana.“

Egill Helgason kveðst ósammála því að borið hafi á einhverri útlendingaandúð. Mistök hafi verið gerð með því að hleypa fólki inn í landið án nægs eftirlits.

„Veiran barst aftur inn í landið með fólki sem var á ferðinni og fékk að koma inn í landið án þess að eftirlitið væri nægt. Þessi tugga um ferðamennina er orðin mjög þreytt. Og nú sitjum við uppi með skóla sem geta varla byrjað - það vantaði fyrirhyggjusemi. Má reyndar benda á að Þórólfur Guðnason réði fólki frá því að ferðast til útlanda. Yfirvöld settu upp Gula hátalara og hófu auglýsingaherferð erlendis um að Ísland væri kóvídfrítt.“