Egill segir að dómar fyrir ofbeldisbrot séu allt of vægir – „Margir jafna sig aldrei“

„Það er mikið rætt um ofbeldi í borginni. En staðreyndin er sú að dómar fyrir gróft ofbeldi, líkamsmeiðingar og fólskuverk eru alltof vægir,“ segir sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason á Facebook-síðu sinni.

Töluvert hefur verið fjallað um þá öldu ofbeldis sem virðist ganga yfir hér á landi og er skemmst að minnast hnífaárásar á skemmtistað í miðborginni í síðustu viku.

Í gær féll svo dómur í öðru fólskulegu ofbeldismáli en þá var karlmaður dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að slá tvo vinnufélaga sína með hamri síðastliðið sumar. Afleiðingar árásarinnar voru þær að annar mannanna þríhöfuðkúpubrotnaði.

Egill gerir þennan dóm sérstaklega að umtalsefni og segir að almennt séu dómar fyrir gróf ofbeldisbrot of vægir.

Sitt sýnist hverjum um það og í umræðum undir færslu Egils er til dæmis bent á að dómar sem slíkir komi ekki í veg fyrir ofbeldi sem þegar hefur átt sér stað. Ofbeldi hljóti að eiga sér rætur sem þurfi að uppræta og fæstir sleppi heilir úr fangelsum.

Egill segir aftur á móti að menn beiti fruntalegu ofbeldi, örkumla jafnvel fólk, og fá væga dóma. Hið sama eigi við um kynferðisofbeldi.

„Að verða fyrir ofbeldi er grófasta frelsissvipting sem til er. Ofbeldismaðurinn tekur ekki bara öll mannréttindi fórnarlambsins heldur líka sjálfsvirðinguna og sjálfstraustið. Margir jafna sig aldrei. Hér tek ég líka með kynferðisofbeldi. Refsingar mega ekki vera svo vægar að líti út fyrir að samfélagið samþykki verknaðinn - kói með ofbeldinu.“