Egill minnist frænda síns: „Einn sá maður sem ég hef borið mesta virðingu fyrir á ævinni“

Sjónvarpsmaðurinn Egill Helgason fer fögrum orðum um móðurbróður sinn, Jóhannes Ólafsson, kristniboða og lækni, sem andaðist í Noregi í gær, 93 ára að aldri. Óhætt er að segja að Jóhannes hafi átt viðburðaríka ævi en hann starfaði lengst af í Eþíópíu.

„Jóhannes er einn sá maður sem ég hef borið mesta virðingu fyrir á ævinni,“ segir Egill í færslu á Facebook og bætir við:

„Hann hafði hið hægláta og virðulega fas móður sinnar Herborgar, ömmu minnar. Jóhannes átti stórmerka ævi. Hann ólst upp í Kína þar sem foreldrar hans voru kristniboðar, og eftir stúdentspróf fetaði hann sömu slóð, gerðist læknir og kristniboði í Eþíópíu. Hann var læknir í stórum héruðum þar sem var sáralitla læknisþjónustu að hafa.“

Egill segir að Jóhannes hafi unnið baki brotnu og Eþíópíumaður sem hann hitti eitt sinn hafi haft á orði að Jóhannes hefði verið goðsögn í lifanda lífi í Eþíópíu.

„Það er ekki hægt að koma tölu á hversu mörgum mannslífum hann bjargaði eða hversu margt fólk hann læknaði og líknaði – en trúin var honum mikilvæg, stoð í þessu starfi sem var auðvitað mjög gefandi en fól líka í sér margvíslegar fórnir, að minnsta kosti á mælikvarða okkar vestrænu efnishyggju. Blessuð sé minning stóra bróður mömmu minnar – sem hún elskaði og dáði alla tíð,“ segir Egill.

Jóhannes var í athyglisverðu viðtali í Læknablaðinu árið 2014 þar sem hann fór yfir feril sinn. Þegar hann var spurður hvort hann væri ánægður með ævistarf sitt, sagði hann meðal annars: „Já, mér finnst það hafi verið innihaldsríkt. Það er mikilvægt að hjálpa fólki og ég sá árangur af því.“