Eger og máttur hugans

Það er um margt merki­legt hvað hugurinn getur farið með okkur á marga og fjöl­breytta staði, bjarta sem myrka. Hugurinn er ó­trú­lega öflugt fyrir­brigði og það getur verið full vinna að hafa á honum ein­hverja stjórn. Hann fer frekar á flug þegar þú hefur meiri tíma til að láta hann reika og þegar minna fram­boð er að hafa til að dreifa honum.

Hugurinn er stöðugt að vinna úr reynslu okkar og upp­lifunum, hann leiðir okkur gjarnan að á­föllum í lífinu, ekki síst þeim sem lítið hefur verið unnið úr og gert með. Það geta verið mjög þungar hugsanir þegar lífið hægir á sér og fólk situr heima með sjálft sig og hugann.

Það er ó­nota­legt þegar hugurinn fær taum­laust frelsi til að rök­styðja allt til verri vegar með nánast engri við­stöðu eða mikil­vægum rök­stuðningi á móti. Hjálp í þeirri bar­r­áttu hefur m.a. fengið far­veg í hug­rænni at­ferlis­með­ferð og gerir sitt gagn við að mæta bar­r­áttu hugans í stað þess að flýja hana, flóttinn birtist eins og við vitum ó­sjaldan í sjálf­skaðandi hegðun sem deyfir um stund en verður oftar en ekki að víta­hring.

Ég fór að velta þessu með hugann fyrir mér á þrengingar­tímum eftir að hafa lesið bókina „The Gift“ 12 Les­sons to save your Life sem hin ung­versk­ættaða Edith Eger reit í hárri elli sinni. Áður hefur hún sent frá sér „The Choice“ sem er verð­launa­bók.

Eger á sér gyðing­legan bak­grunn og ung­lings­stúlka lifði hún af fanga­vist í Auschwitz. For­eldrar hennar voru báðir teknir af lífi í fanga­búðunum ill­ræmdu daginn sem fjöl­skyldan var flutt þangað. Eger er kunn fyrir störf sín sem sál­fræðingur í Banda­ríkjunum og hefur nýtt sér reynslu sína ó­fáum skjól­stæðingum til heilla og blessunar.

Það sem einkum snerti mig við lesturinn er við­horf hennar til hugans og hvernig hún vekur mann til með­vitundar um marga þá mögu­leika sem við höfum til að láta hugann vinna með okkur í stað þess að rífa okkur niður. Með skrifum sínum vill Eger síst að lesandinn fari að bera eigin reynslu saman við hennar heldur að hann sé reiðu­búinn að hugsa hlutina með þeim hætti að fyrst hún gat unnið með reynslu sína að þá gefst honum sömu­leiðis kostur á því. Bókin „The Gift“ skal vera í því sam­bandi hvatning.

Hver er svo grunnurinn að þessari úr­vinnslu Eger sem hefur vissu­lega ekki verið ein­falt verk­efni en að sama skapi ekki ó­yfir­stígan­legt? Það er einkum það að dvelja ekki við spurninguna hvers vegna ég heldur hvað svo? Það er mikil­vægi þess að festast ekki í huga fórnar­lambsins heldur til­einka sér hugar­far þess sem vill lifa af.

Nóttina eftir að for­eldrar Eger voru teknir af lífi í Auschwitz var hún sótt og henni fyrir­skipað að dansa fyrir framan morðingja for­eldra hennar. Þar sem hún stóð ber­skjölduð tánings­stúlka, búið að svipta hana öllu, minntist hún orða móður sinnar að enginn gæti tekið frá henni þær myndir sem hún sjálf kallaði fram í hugann.

Á þeirri stundu lokaði hún augunum og lét hugann leiða sig á hið stóra svið óperu­hússins í Búda­pest þar sem hún sá sjálfa sig dansa hlut­verk Júlíu í ballett eftir Tchai­kov­sky. Máttur hugans skóp frelsi í annars ömur­legum og niður­lægjandi að­stæðum þar sem hver stund var sem hel­víti á jörðu.

Eitt þeirra hug­taka sem er mjög fyrir­ferða­mikið í hugans bar­áttu er fyrir­gefningin. Ekkert okkar fer í gegnum lífið öðru­vísi en að hug­leiða hana og takast á við hana. Hún getur farið með hugann inn í storm reiði en blessunar­lega líka inn í logn sáttar. Mér fannst for­vitni­legt að lesa um við­horf hinnar reynslu­ríku Eger til fyrir­gefningarinnar. Þar minnir hún okkur á að fyrir­gefningin sé einkum fyrir okkur sjálf en ekki gerandann. Þannig virkar fyrir­gefningin sem frelsandi afl.

Á meðan þú heldur því fram að þú getir ekki fyrir­gefið ein­hverjum þá ertu um leið að eyða orku þinni í það að vera á móti fremur en að vera til staðar fyrir sjálfan þig og öðlast þannig frekar það líf sem þú átt skilið. Það má hins vegar alls ekki skilja fyrir­gefninguna þannig að hún sé stað­festing á því að ein­hver fái sér­stakt leyfi til að særa þig á­fram því það er aldrei í lagi. En það er hins vegar að­eins þú einn eða ein sem getur fengið sárið til að gróa sem þegar er orðið og er við­fang fyrir­gefningarinnar.

Nú þegar staðið er frammi fyrir al­var­legri far­sótt sem hægir tölu­vert á hátt­bundnum takti til­verunnar þá sækir hugurinn fremur í sig veðrið heldur en hitt. Þá getur verið gott og vekjandi að staldra við og leita í reynslu­banka mann­eskju á borð við Edith Eger. Hún hefur upp­götvað í ljósi reynslu sinnar annan og hollari far­veg fyrir hugann en þann að standa fastur í sporum fórnar­lambsins og láta spurninguna hvers vegna ég elta sig á röndum. Ráð hennar er að hug­leiða til­veruna miklu fremur út frá sjónar­hóli þeirrar mann­eskju sem vill komast af og sér tæki­færin í reynslunni. Hugurinn er þinn, og að­eins þinn!