Hringbraut skrifar

Ég hefði alveg týnt sjálfri mér án ömmu auðar

13. febrúar 2020
13:39
Fréttir & pistlar

Auður Jónsdóttir, rithöfundur segist hafa verið að flótta frá sjálfri sér og öllu sínu á löngum kafla unglingsáranna, einkum vegna heimilisaðstæðna, en á endanum hafi það verið amma Auður Laxness sem hafi bjargað henni og reynst hennar helsta stoð og stytta.

Þetta kemur fram í einstaklega persónulegu samtali þeirra Auðar og Sigmundar Ernis í viðtalsþættinum Mannamáli í kvöld klukkan 20:00, en þar lýsir Auður því í ítarlegu máli hvernig afar nánu og sérstæðu sambandi þeirra nafna fyrir botni Mosfellsdals var háttað.

Auður og Auður er raunar heiti nýrrar sögusýningar sem Auður hefur samið fyrir Söguloftið á Landnámssetrinu í Borgarnesi, en hana frumsýndi hún um síðustu helgi við mikla hrifningu áhorfenda í troðfullum sal - og eru næstu sýningar þegar vel bókaðar, sjá nánar á vefsíðunni landnam.is

Og hún fer um víðan völl í hispurslausu samtali sínu við Sigmund Erni í kvöld, talar um sérstakt samband sitt á árum áður við tuttugu árum eldri mann og skilnaðinn við barnsföður sinn nú nýverið, svo og þá áráttu hennar að nota óspart átökin og háskan í eigin lífi í bókum sínum.

Þetta einstaklega áheyrilega viðtal þar sem Auðarnar báðar eru í forgrunni byrjar sem fyrr segir klukkan 20:00 í kvöld.