Eftiráskýringar og ófullkomin lagasetning ríkisstjórninni til skammar

9. maí 2020
12:47
Fréttir & pistlar

Hræsni er orðið sem kemur fyrst í hugann þegar reynt er að lýsa viðbrögðum sumra ráðherra vegna ágreinings sem orðið hefur vegna svonefndrar hlutabótaleiðar sem ákveðin var með lögum frá Alþingi vegna ráðstafana sem nú er reynt að koma á vegna veiruvandans.

Óheppilegt er að fáein fyrirtæki nýttu sér þetta úrræði þó svo starfsemi þeirra hafi lítið sem ekkert dregist saman. Flest þeirra hafa nú leiðrétt mistök sín.

En mistækir ráðherrar hafa reynt að nýta sér tilefnið til að ráðast á þessi fyrirtæki og nánast allt atvinnulífið til að sverta forsvarsmenn þess. Með þessu reyna ráðherrar að þyrla upp moldryki í þeim tilgangi að beina athyglinni frá eigin mistökum og margháttuðu sleifarlagi.

Lögin um hlutabótaúrræðið eru óskýr og ófullkomin. Þau eru illa undirbúin frá hendi stjórnvalda og afgreidd þannig gegnum þingið. Þess vegna verða mistök. Svo kemur forsætisráðherra fram með margháttaðar eftiráskilgreiningar og íþyngjandi ákvæði sem aldrei var talað um áður.

Það er frumskylda löggjafans að hafa lagasetningu skýra og skiljanlega. Frá upphafi. Alþingi getur ekki boðið upp á að lög séu sett og svo bæti ráðherrar við ákvæðum að eigin skapi ef illa liggur á þeim. Það mun heldur ekki takast og fær ekki staðist með neinu móti.

Ríkisstjórnin hét samráði við stjórnarsndstöðuna en hefur svikið það.
Ef fleiri hefðu fengið ráðrúm til að kynna sér fyrirhugaða lagasetningu má ætla að einhverjir hefðu komið auga á veikleikana og klúður sem hefði verið lagað - fyrirfram, sem er rétt og boðleg stjórnsýsla.

Þegar forsætisráðherra var búinn að býsnast yfir túlkun sumra fyrirtækja á gölluðum lögum um umrætt úrræði, þá bætti fjármálaràðherra um betur og vændi menn um að rjúfa sátt (sem ríkisstjórninni
hefur mistekist að koma á) og svo kallaði hann eftir nafnabirtingum “til að auka gagnsæi”.

Ekkert að því að auka gagnsæi. Vonandi verða einnig birtar skýrar og gegnsæar upplýsingar um sameiningu Kynnisferða og sjóðs í rekstri og umsjá Íslandsbanka sem tilkynnt var um í vikunni.

Kynnisferðir munu hafa staðið mjög tæpt fjárhagslega. Fjölskylda Bjarna Benediktssonar mun eiga um 65% hlutafjár í félaginu. Bróðir Bjarna gegnir formennsku. Íslandsbanki er að fullu í eigu ríkissjóðs Íslands. Fjármálaráðherra lítur eftir eigum ríkisins.

Til þess að engum komi neitt misjafnt í hug vegna þessarar björgunaraðgerðar er gegnsæi mikilvægt.