Eftir höfðinu dansa limirnir

Á tímabilinu maí 2020 til maí 2021 hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði um 5,8 prósent. Vel í lagt kynnu einhverjir að segja – svona á tímum Covid-19 og hruns í ýmsum atvinnugreinum, þar á meðal í ferðaþjónustu sem er ein helsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Samt sem áður er einkageirinn ekki sinni hálfdrættingur á við hið opinbera þegar kemur að launahækkunum. Í opinbera geiranum hækkuðu laun um 12,5 prósent og hjá sveitarfélögunum hækkuðu þau um 14,5 prósent á sama tíma og tekjur drógust saman vegna áhrifa faraldursins.

Við þetta bætist að lífeyriskjör opinberra starfsmanna eru miklum mun betri og tryggari en starfsfólks á almennum vinnumarkaði, meðal annars vegna ríkisábyrgðarinnar sem er á skuldbindingum Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.

Svo virðist sem fullkomið stjórnleysi ríki í launamálum hins opinbera. Einhvern tíma voru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna umfram það sem tíðkaðist á almennum markaði réttlætt með því að launin í opinbera geiranum væru svo lág.

Fyrir nokkrum árum var farið í að hækka laun í opinbera geiranum og „leiðrétta“ til samræmis við launakjör á almennum markaði. Myndarlega var gengið í það verk svo nú eru laun hjá hinu opinbera orðin hærri en tíðkast á almennum markaði, þegar sleppir nokkrum forstjórum og millistjórnendum í fjármálageiranum og íslenskum fyrirtækjum með umsvif á alþjóðamarkaði. Ekki var hins vegar hróflað við lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Þau voru ekki „leiðrétt“ til samræmis við almennan markað.

Í tíð vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur hefur ástandið varðandi yfirbyggingu og launamál ríkisins farið algerlega úr böndunum og fullkomið stjórnleysi ríkt. Forsætisráðherra hefur engin tök á stjórn landsins og hennar eigið ráðuneyti hefur gengið á undan með vondu fordæmi og þanist út eins og enginn sé morgundagurinn. Fjölgun starfsmanna Forsætisráðuneytisins mælist í tugum prósenta á þessu kjörtímabili. Fyrir 30 árum voru starfsmenn ráðuneytisins 15 talsins. Nú starfa 22 aðeins á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins og 15 á skrifstofu löggjafarmála. Alls eru starfsmenn ráðuneytisins 60.

Fyrirhyggjuleysi og óstjórn í launamálum ríkisins er æpandi. Skuldbinding ríkisins (lesist skattgreiðenda) vegna Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna vex í hlutfalli við launahækkanir hjá ríkinu og erfitt er að sjá óráðsíuna enda með öðru en skattahækkunum og kreppu. Segja mætti að atburðarásin sé jafnvel farin að líkjast því sem birst gæti í uppáhaldsbókmenntagrein Katrínar Jakobsdóttur, glæpasögunni. Fórnarlömbin eru Íslendingar framtíðarinnar og gerandinn ... ja, þeir eru fleiri en einn, en eftir höfðinu dansa limirnir ...

- Ólafur Arnarson