Eftir hálfs árs bar­áttu fær Drífa að flytja lík eigin­mannsins heim til Ís­lands: „Við erum smá að fagna. Við erum að fara fá Halla“

Drífa Björk Linnet Kristjáns­dóttir, ekkja Haraldar Loga Hrafn­kels­sonar, hefur loksins fengið leyfi til að flytja jarð­neskar leifar eigin­manns síns til Ís­lands. Hún hefur staðið í sex mánaða bar­áttu við spænsk yfir­völd. Drífa greinir sjálf frá þessu á Insta­gram.

Haraldur Logi lést í elds­voða á Tenerife á Spáni þann 6. febrúar síðast­liðinn og segir Drífa fjöl­skylduna bók­staf­lega búna að liggja á tröppunum hjá lög­reglunni í sex mánuði.

„Við erum smá að fagna. Við erum sem­sagt búnar að fá fréttir um það að við erum að fara fá Halla. Ég var á fundi í morgun og aftur núna seinni­partinn með út­farar­þjónustu og það lítur allt út fyrir það að á næstu dögum fáum við Halla til okkar,“ greindi Drífa frá á Insta­gram síðu sinni í gær­kvöldi.

Drífa segir spænsk yfir­völd ætla af­henda þeim Harald Loga af mann­úðar­á­stæðum þrátt fyrir að málinu sé ekki lokið. Enn hafi ekki upp­tök eldsins ekki vera fundin.

„Þeir ætla að reyna klóra sig fram úr því að skrifa á dánar­vott­orðið þó þeir geti ekki ná­kvæm­lega sett á það um hvað þetta snýst. Þeir ætla setja á dánar­vott­orðið að þetta hafi verið slys en aftur á móti eru upp­tök eldsins ekki al­gjör­lega komin á hreint,“ sagði Drífa jafn­framt á Insta­gram.

Drífa greindi frá því á Insta­gram í síðustu viku að and­lát eigin­manns hennar hafi ekki borið að með sak­næmum hætti.

Eldur hafi komið upp í húsi þeirra á Tenerife þann 6. febrúar síðast­liðinn hafi hún hringt á slökkvi­lið og lög­reglu sem náðu að ráða niður­lögum eldsins.

Í kjöl­farið hafi henni verið til­kynnt að eigin­maður hennar hafi fundist látinn í einni af tveimur bif­reiðum fjöl­skyldunnar í bíl­skúrnum og að hann hafi strax verið úr­skurðaður látinn.

Eftir sex mánaða bar­áttu fjöl­skyldunnar lítur nú út fyrir að þau fái loksins að flytja Harald Loga heim

Minningar­at­höfn um Harald Loga verður haldin 23. ágúst næst­komandi en þá hefði hann orðið fimm­tugur.