Eðlilegt að ætlast til afgreiðslu á íslensku - „Grundvallaratriðið er að við verðum að gera betur“

Málfræðingurinn Eiríkur Rögnvaldsson lýsti skoðun sinni á umræðum Facebook-verja um erlent afgreiðslufólk á Íslandi á bloggsíðu sinni í dag og hafði þar ýmislegt að segja.

„Ég get alveg tekið undir það að það er eðlilegt að ætlast til þess að geta fengið afgreiðslu á íslensku á Íslandi,“ skrifar Eiríkur. „Íslenska er opinbert tungumál landsins og alls ekki allir sem treysta sér til að tala ensku. Það er líka sjálfsagt að byrja alltaf að tala íslensku við afgreiðslufólk og halda því áfram ef fólkið vill greinilega reyna að skilja okkur - og aðstoða við skilninginn eftir mætti. Það er forsenda fyrir því að fólk læri málið.“

Eiríkur telur hins vegar óásættanlegt að afgreiðslufólki sem ekki talar íslensku sé sýndur dónaskapur, enda sé krafa um íslenskukunnáttu á ábyrgð atvinnurekandans. „Það er á ábyrgð atvinnurekenda að kenna starfsfólki sínu það sem þarf til að það geti sinnt því starfi sem það er ráðið til á sómasamlegan hátt, hvort sem er að kenna því á kassann, ísvélina, lattegerð, eða grunnorðaforða í íslensku.“

Þá bendir Eiríkur á að flest önnur Evrópumál en íslenska séu lykill að menningu og vinnumarkaði stórra samfélaga en að lítill hvati sé fyrir hendi fyrir farandverkamenn sem ekki séu ákveðnir til að dvelja á Íslandi til langtíma til að læra íslensku frekar en ensku.

Lausnina segir Eiríkur liggja hjá Íslendingum. „Grundvallaratriðið er að við verðum að gera betur. Við verðum að bæta aðgengi að íslenskukennslu og gera fólki kleift að læra íslensku í vinnutímanum, og hvetja það til þess. […] En fyrst og fremst þurfum við að breyta viðhorfi okkar. Við þurfum að vera jákvæð gagnvart allri íslensku, hversu ófullkomin sem okkur kann að finnast hún, og alls ekki láta skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki á nokkurn hátt.“