Edda lenti í hávaðarifrildi við budduna: „Ég hellti mér yfir ísskápinn áðan og gargaði“

„Eg er búin að komast að því að ég yrði ekki góður vitavörður. Félagsþörfin er slík að ég er farin að hanga úti í glugga og vinka bílum sem keyra Þjóðveg 1. Einn og einn hestamaður þeytist hér fram hjá og ég hrópa og kalla, í þeirri von að þeir nenni að stoppa smá og spjalla. Þeir heyra aldrei í mér.“

Þetta segir ein besta leikkona þjóðarinnar, Edda Björgvinsdóttir. Nýverið greindi Fréttablaðið frá því að Edda hefði ákveðið að láta gott af sér leiða og hefur hún skráð sig sem sjálf­boða­liða í bak­varðar­sveit fyrir hjúkrunar­heimilið Lund á Hellu. Edda er því flutt út á land til að vera þar til taks, í það minnsta tímabundið á meðan kórónagfaraldurinn geisar yfir. Edda lýsir vistinni úti á landi og við gefum þessari frábæru leikkonu orðið hvernig vistin er á Hellu.

„Ég er líka farin að tala óeðlilega mikið við eldhúsvaskinn, ísskápinn og hraðsuðuketilinn. Lenti í hávaðarifrildi við snyrtibudduna mínu (lífrænu!) Það vantaði nýtt augnskuggabox sem ég vissi að ég hafði keypt fyrir nokkru og helv.. buddan þrætti fyrir að hafa týnt því. Ég vissi betur og skipaði henni að fara inn í herbergi og hugsa sinn gang. Óþolandi hegðunarvandamál.

Ég hellti mér yfir ísskápinn áðan og gargaði inn í hillurnar að ég hataði allt hollt, sérstaklega kál, rófur, sellerí og hnúðkál! Ég heimtaði að hann skilaði þessu kanínufóðri strax í búðina og keypti almennilegt gúmmulaði.

Ég hreytti líka ónotum í tröllahafrana og fræblönduna þegar ég var að blanda mér heilsute (ég hata te!) Svo var ég um það bil að sparka í hrökkkexið, þegar ég áttaði mig á því að ég þyrfti kannski bara að hringja í þerapistann minn.

Góðu fréttirnar eru þær að ég er búin að þramma svo mikið úti í náttúrunni að ég er komin með lærvöðva eins og Uxi og jógaæfingarnar gera mig svo liðuga að ég get vafið löppunum utan um mittið á mér og sveigt hausinn þannig að ég get horft uppí ....

Jæja ég ætti kannski að sættast við snyrtibudduna mína og mála mig eins og gála og skreppa út með ruslið!“