Edda Falak: Sorg­legt að það virðist alltaf hlakka í fólki þegar það trúir að konum hafi lent saman

Sam­fé­lags­miðla­stjarnan Edda Falak segir að það sé svo sorg­legt hve mikið það virðist hlakka í fólki þegar það heldur að tveimur konum hafi lent saman. Edda ræðir málið á Twitter síðu sinni.

Til­efnið eru fréttir þess efnis að Fjóla Sigurðar­dóttir, annar þátta­stjórn­enda hlað­varpsins Eigin Konur, hafi til­kynnt um helgina að hún sé hætt í hlað­varpinu. DV birti í kjöl­farið frétt um að sögu­sagnir um að kastast hefði í kekki á milli þeirra væru há­værar.

Var þar meðal annars tekið fram að Fjóla hefði ekki minnst einu orði á Eddu í til­kynningu sinni um að hún væri hætt í þáttunum. Þá hefur Edda Falak að sama skapi ekki brugðist við tíðindunum með neinum hætti og þykir það renna enn frekari stoðum undir orð­róminn.

Edda tjáir sig ekki efnis­lega um orð­róminn, en úr orðum hennar má lesa að ekkert sé til í því sem slegið hefur verið upp um meint ó­sætti þeirra. „Það er svo sorg­legt hvað það virðist hlakka alltaf í fólki þegar því er talið trú um að konum hafi lent saman eða séu að “beefa,“ skrifar Edda.

Hún er spurð hvað sé eigin­lega málið og hvort að fólk haldi í al­vöru að allar konur séu alltaf sam­mála um allt. Edda svarar:

„ég held að það veiti fólki sem líður illa og fólki sem er upp­fullt af minni­máttar­kennd, ein­hvers­konar á­nægju þegar það heldur að öðrum gangi illa.“