Edda Falak ósátt: „Hvernig er þetta ekki lögreglumál?“ – Hópurinn farinn í felur

Edda Falak, fjármálafræðingur og hlaðvarpsþáttastjórnandi, kallar eftir því að lögregla grípi til aðgerða gegn meðlimum Karlmennskuspjallsins á Facebook.

Svo virðist vera sem hópurinn sé farinn í felur á Facebook því hann er ekki aðgengilegur lengur. Þegar nafni hans er slegið upp í Google og smellt á efstu slóðina finnst Facebook-síðan ekki. Þá finnst hann ekki heldur þegar nafni hans er slegið upp í leitarslá Facebook.

Eins og nafnið gefur til kynna er Karlmennskuspjallið vettvangur fyrir karla til að tala um málefni karla. Oftar en ekki hefur umræðan þó snúist um konur á niðrandi hátt. Skemmst er að minnast ummæla sem Kristinn Sigurjónsson, fyrrverandi lektor við HR, lét falla innan hópsins árið 2018 þar sem hann sagði konur eyðileggja vinnustaði karla. Kristni var síðar sagt upp störfum hjá HR.

„Karlmennskuspjallið er hópur á facebook þar sem fer fram svæsin og óvægin hatursorðræða gegn konum og þar hæðast menn að reynslusögum þolenda kynferðisofbeldis. Hvernig er þetta ekki lögreglumál? menn koma þarna undir nafni, halló! JAILTIME,“ sagði Edda Falak á Twitter-síðu sinni í gær.

Umræður um Karlmennskuspjallið hafa einnig farið fram í Facebook-hópnum Baráttuhópur gegn ofbeldismenningu. Í færslu sem birtist þar í gær voru upplýsingar um alla meðlimi Karlmennskuspjallsins birtar. Þegar þetta er skrifað hafa hátt í 300 athugasemdir verið skrifaðar.

Færsla Eddu hefur vakið talsverða athygli og hafa nokkrar athugasemdir verið skrifaðar við færslu hennar. „Það er sem betur fer ekki viðurlög við að vera fáviti en fávitar eru þetta,“ segir í einni athugasemd. Annar segir að þetta komi ekkert á óvart en það sé galið hvernig svona hópar fái að vera uppi.