Edda Falak birti mynd og fékk mikil viðbrögð - „Sjaldan smakkað verri smákökur“

Edda Falak, hlaðvarpsþáttastjórnandi og fjármálafræðingur, gefur hinum svokölluðu loftökum ekki háa einkunn. Sumum þykja þessar dísætu kökur ómissandi með kaffinu og yfir jólahátíðina. Edda Falak er ekki í þeim hópi.

„Spáið í þvi að vera í búðinni og bara: heyrðu, hvar ertu með loftkökurnar?,“ sagði Edda á Twitter um helgina og birti mynd af loftkökukassa frá kexverksmiðjunni Frón. Edda bætti svo við í annarri færslu að hún hafi alltaf fengið loftkökur í skóinn þegar hún var óþekk.

Eins og oft vill verða eru skiptar skoðanir á færslu Eddu, sumir taka heilshugar undir með henni á meðan aðrir eru á öndverðum meiði.

„Ég fæ sömu tilfinningu í tennurnar af að sjá þetta og að sjá ógeðslega atriðið í American History X,“ segir Ágúst Már Garðarsson, betur þekktur sem Gústi Chef á Twitter. „Sjaldan smakkað verri smákökur en þessar,“ segir í annarri athugasemd.

„Láttu ekki svona, þetta eru snilldar kökur,“ segir einn á meðan annar bætir við: „Mér finnst loftkökur frá of mikið hate. Einu jólasmákökurnar sem ég fýla.“