Edda birti mynd og var spurð hvort hún væri búin að fitna – Notaði tækifærið til að senda skilaboð

Áhrifavaldurinn og hlaðvarpsdrottingin Edda Falak fékk heldur leiðinleg skilaboð eftir að hún birti mynd af sér á Instagram.

Einn fylgjandi hennar spurði: „Af hverju ertu búin að fitna? Ekki illa meint samt.“

Edda notaði tækifærið til að senda skilaboð út í þjóðfélagið, hún svaraði:

„Kannski ekki illa meint en af hverju skiptir það máli fyrir einhvern? Ég veit ekki endilega til þess að ég sé búin að fitna en ég er vissulega ekki jafn skorin og áður,“ sagði Edda: „Ég fæ endalaust af skilaboðum þar sem fólk finnur sig knúið til þess að segja mér hvernig ég lít út, hvernig ég ætti að líta út, hvað má gera, hvað má ekki gera, hvað sé viðeigandi, hvað sé óviðeigandi, að ég sé óörugg, að ég sé athyglissjúk, að ég sé of skorin, að ég sé of mössuð, að ég sé of mjó, að ég sé með of feit læri og að ég sýni of mikið.“

Edda segir samfélagið elska að segja „þér hvernig þú átt að vera og hvernig þú átt að haga þér.“

„Þessi endalausi hlutverkaleikur: Ekki segja of mikið, ekki sýna of mikið. Vertu sjálfsörugg en ekki of. Vertu ánægð með líkamann þinn en ekki sýna að þú sért ánægð með hann. Vertu sæt en ekki segja að þú sért sæt.“