Dramb er falli næst - einnig hjá Framsókn í Reykjavík

Samkvæmt Fréttablaðinu stefna framsóknarmenn ótrauðir að því ná að minnsta kosti fjórum borgarfulltrúum í kosningunum í vor. Þetta er vel í lagt hjá flokki sem náði engum fulltrúa síðast. Fjórum árum fyrr náði flokkurinn tveimur fulltrúum undir merkjum Framsóknar og flugvallarvina, en þá var flugvallarmálið hitamál. 2010 náði flokkurinn engum fulltrúa og aðeins einum 2006. Í næstu þrennum kosningum á undan bauð flokkurinn ekki fram en var þess í stað þátttakandi í Reykjavíkurlistanum sem fór með stjórn borgarinnar 1994-2006.
Væntanlega er markmið Framsóknar að mynda meirihluta í borginni með Vinstri grænum og sjálfstæðismönnum, eins og í ríkisstjórn, og setja borgarstjórastól undir Eyþór Arnalds.
Óvíst er þó að dæmið hafi verið reiknað til enda. Færi svo að Framsókn næði inn manni, eða jafnvel tveimur, í vor kæmu þeir að líkindum frá Miðflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Trúlega félli Vigdís Hauksdóttir fyrst og næsti maður til að falla fyrir Framsókn í borginni yrði áttundi maður Sjálfstæðisflokksins. Mjög ólíklegt er því að endurkoma Framsóknar í borgarstjórn yrði til annars en að tvístra minnihlutanum enn frekar en nú er.
Fátt gefur framsóknarmönnum tilefni til mikillar bjartsýni. Í nýliðnum alþingiskosningum fékk flokkurinn í kringum 13 prósent í borginni með sínar stærstu og mestu vonarstjörnur í oddvitasætum í miklum kosningasigri á landsvísu. Jafnvel slík niðurstaða yrði víðs fjarri því að færa Framsókn fjóra borgarfulltrúa og væri jafnvel óvíst með þrjá. Hugsanlega hafa forystumenn flokksins í Reykjavík einfaldlega ofmetnast af ágætum árangri í þingkosningunum.
- Ólafur Arnarson