Drakk hálfan lítra af rjóma fyrir svefninn

Rafn Frank­lín John­son einka­þjálfari og heilsu­sér­fræðingur er nýjasti gesturinn í Pod­casti Sölva Tryggva­sonar. Rafn, sem hefur legið yfir öllu sem snýr að heilsu fólks á undan­förnum árum var að gefa út bókina „Borðum Betur.“ Í þættinum fer hann yfir ferða­lag sitt þegar kemur að heilsu. Hann hóf að æfa lyftingar sem ung­lingur og át þá allt sem að kjafti kom og hugsaði um lítið annað en að verða sterkari. En á á­kveðnum punkti áttaði hann sig á því að hann var á leiðinni í ó­heil­brigða átt:

„Ég var nokkurn vegin and­staðan við það sem ég er í dag. Ég var sófa­kar­tafla og fann mig ekki í í­þróttum og hef alltaf elskað að borða. Á tíma­bili saman­stóð matar­ræðið mikið til af pizzum, kók, nammi og rusli. Svo byrjaði ég að stunda lyftingar og það kveikti að­eins á með­vitundinni um að ég gæti haft á­hrif á skrokkinn á mér. En ég hélt samt á­fram að borða ó­hollt af því að ég var fyrst og fremst að hugsa um að stækka og verða sterkur og í kraft­lyftinga­geiranum snerist matar­ræði aðal­lega um að borða sem mest af öllu. Því sverari því betra, alveg sama hvort það voru vöðvar eða fita. Þetta snerist fyrst og fremst um að troða ofan í sig eins miklu og maður gat og það var bein­línis orðið leiðin­legt að borða. Það lá við að það væri þannig að strax og maður var búinn að borða fór maður að huga að næstu mál­tíð. Ég drakk á tíma­bili hálfan lítra af rjóma fyrir svefninn. Ég var senni­lega kominn í hálf­gert for­sykur­sýkis-á­stand án þess að átta mig á því. Það voru við­vörunar­bjöllur byrjaðar að kvikna án þess að ég tæki kannski beint eftir því. En smátt og smátt fór ég að fræða mig meira og meira og breyta lífs­stílnum.“

Rafn segist stundum hissa á að ekki sé meira rætt um heilsu og styrkingu ó­næmis­kerfisins þegar kemur að Co­vid. Það sé ekki þannig að við getum ekkert gert sjálf til þess að styrkja ó­næmis­kerfið:

„Af þeim rann­sóknum sem ég hef séð tengt Co­vid, þá virðist mjög margt benda til þess að þeir sem eru með efna­skipta­vanda­mál eða insúlín­við­nám fari miklu verr út úr Co­vid. Ef þú ert kominn með líkamann í ein­hvers konar for­sykur­sýkis­á­stand þá virðist það hafa mikla fylgni við að þú farir illa út úr vírusnum. Þetta er bara stað­reynd og mér finnst al­gjör­lega galið að þetta hafi fengið svona litla um­ræðu. Það eru dag­legir fundir og auð­vitað ætti að bæta þar inn um­ræðu um heilsu og hvað við getum gert til þess að styrkja ó­næmis­kerfið okkar og bæta heilsu. Þetta kemur mér reyndar ekki á ó­vart, því að vest­rænt heil­brigðis­kerfi er ekki að fókusa á heilsu, heldur að bæla vanda­málin þegar þau eru komin. Það getur verið gott og blessað, en það er al­gjört gat í sam­fé­laginu hvað varðar for­varnir og að koma í veg fyrir hlutina áður en skaðinn er skeður. Fólk er mjög mót­tæki­legt núna og þetta tíma­bil væri kjörið til þess að keyra upp alla fræðslu varðandi allt sem snýr að heilsu og auknu heil­brigði. Við erum búin að vera með at­hygli allra lands­manna á þessum frétta­manna­fundum og í öllu Co­vid tíma­bilinu. Við ættum að nota það til að fá fólk til að byrja að bæta svefninn sinn smátt og smátt, laga matar­ræðið að­eins og auka hreyfingu.“

Rafn hefur kafað ofan í matar­ræði og mat­væla­iðnaðinn og segir að þar hafi við­gengist hlutir sem séu ekki í lagi:

„Þegar maður fer að tala um þetta við fólk hljómar maður stundum eins og ein­hver “sam­særis­kenninga-nöttari”. En af því sem ég hef séð þegar ég fór að kafa ofan í þetta er aug­ljóst að þessi risa­fyrir­tæki í mat­væla­iðnaðinum hafa verið með puttana í rann­sóknum og fjar­magna þær oft á tíðum. Við verðum að vera mjög með­vituð um þetta ef við ætlum að vera heil­brigð. Margt af því sem hefur komið fram í gegnum tíðina hefur bein­línis reynst rangt þegar betur er að gáð. Mat­væla­fyrir­tækin nota rann­sóknir oft bein­línis sem markaðassetningar­tól fyrir vörurnar sínar. Við lifum á tímum þar sem er haf­sjór af upp­lýsingum og ég skil vel að þetta geti oft á tíðum virkað mjög flókið fyrir fólki.“

Rafn segir að þegar fólk byrji með látum að taka heilsuna sína í gegn í byrjun janúar geri það yfir­leitt þau mis­tök að ætla að breyta öllu í einu og þannig búi það til víta­hring.

„Fólk ætlar að gera allt of mikið í einu af því að það er komið á slæman stað og búið að fá nóg af sjálfu sér. Fólki líður eins og hlutirnir verði að gerast núna af því að það er komið með ógeð. Það er mjög eðli­legt, en við ættum strax að skoða hvort við séum að fara fram úr okkur þegar við förum af stað með breytingar. Það eru yfir­leitt fyrstu mis­tökin þegar fólk er að setja sér mark­mið, að ætla sér um of. Það getur verið mjög gott fyrir fólk að setja sér mark­mið og taka það svo niður um 50% og byrja þar. Þá er lík­legra að maður standi við það og lík­legt að mann hrein­lega langi að gera meira og fari að hlakka til að bæta við. Setja sér kannski 3 út­komu­mark­mið og helminga þau og nota svo þá niður­stöðu til að búa sér til ferlis­mark­mið sem eru ná­kvæmari.“

Í þættinum ræða Sölvi og Rafn um lífs­stíl, heilsu, hreyfingu, matar­ræði, skila­boð sam­fé­lagsins varðandi alla þessa þætti og margt margt fleira.