Dóra var að lesa Stak­steina þegar Davíð kom í heim­sókn - Verður 108 ára í dag

6. júlí 2020
09:06
Fréttir & pistlar

Dóra Ólafs­dóttir frá Sig­túnum á Kljá­strönd í Suður-Þing­eyjar­sýslu fagnar 108 ára af­mæli sínu í dag. Dóra er elsti nú­lifandi Ís­lendingurinn en hún fæddist þann 6. júlí árið 1912.

Morgun­blaðið fjallar um þetta í dag og greinir frá því að sjálfur rit­stjórinn, Davíð Odds­son, hafi heim­sótt Dóru á dvalar­heimilið Skjól í Reykja­vík um helgina en hún mun vera elsti á­skrifandi blaðsins.

„Ég var ein­mitt að lesa Stak­steina þegar þið komuð, mér líkaði það vel,“ hefur Morgun­blaðið eftir Dóru en Davíð kom með blóm­vönd og þakkaði henni tryggðina við Morgun­blaðið. Þá til­kynnti Davíð henni að hér eftir fengi hún blaðið frítt.

Í sam­tali við blaðið segist hún enn standa í fæturna þegar hún er spurð um heilsu­farið, þó sjónin og heyrnin sé farin að daprast. Dóra styttir sér stundir með bóka- og blaða­lestri.

Alls eru 60 Ís­lendingar 100 ára eða eldri og hafa þeir ekki verið fleiri, að sögn Jónasar Ragnars­sonar sem heldur úti vefnum Lang­lífi. Næst­elsti Ís­lendingurinn er Nanna Frank­líns­dóttir á Siglu­firði en hún er fædd árið 1916.