Dóra Björt segist ekki hafa verið að hvetja fólk til að lykla bíla

Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi Pírata, segist ekki hafa verið að hvetja fólk til að lykla bíla í færslu sem hún skrifaði á Twitter í gær.

Færslan Dóru vakti nokkra at­hygli en í henni sagði hún:

„Fleiri sem fanta­sera í leyni um að lykla bíla sem lagt hefur verið ó­lög­lega uppi á gang­stétt? Spyr fyrir vin.“

Færslunni fylgdi skoðana­könnun þar sem boðið var upp á svar­mögu­leikana „já“ og „nei“. Þegar þetta er skrifað hafa 106 greitt at­kvæði og segist rúmt 61 prósent þátt­tak­enda deila þessari fanta­síu.

Erna Ýr Öldu­dóttir, fjöl­miðla­kona á Út­varpi Sögu, gagn­rýndi Dóru Björt í kjöl­farið og sagði: „Pínu á­byrgðar­laust stöðu þinnar vegna að vera opin­ber­lega að gæla við hug­myndir um skemmdar­verk, og það er mjög vand­ræða­legt að þurfa að benda þér á það.“

Dóra Björt svaraði að bragði og sagði: „Það væri ó­skandi að þú beittir til­gerðar­legu móðgunar­girninni sem þú beitir fyrir einka­bílinn jafn skipu­lagt í þágu varnar­lausa fólksins á flótta.“ Erna Ýr svaraði að ekki ætti að láta beina eða ó­beina hvatningu til of­beldis til að ná fram pólitískum mark­miðum ó­á­talda.

Fleiri blönduðu sér í um­ræðurnar í morgun og sagði einn þátt­takandi í þeim: „Ó ég fanta­sera um svo margt sem ég hvorki fram­kvæmi né hvet annað fólk til að gera.“

Dóra Björt svaraði svo: „Akkúrat, að halda því fram að þessi skoðana­könnun á fantasíum fólks sé hvatning er náttúru­lega grillað.“