Dóra Björt: „Ég er að laga Lauga­veginn. Með því að gera hann að göngu­götu“

12. maí 2020
09:16
Fréttir & pistlar

„For­tíðarskvaldrið ómar þar sem klapp­stýrur aftur­haldsins halda á­fram að því er virðist enda­lausum svana­söng bíla­borgarinnar í takt við dauða­teygjur arf­leifðar borgar­stjórnar­tíðar Davíðs Odds­sonar,“ segir Dóra Björt Guð­jóns­dóttir, borgar­full­trúi Pírata í Reykja­vík, í að­sendri grein í Frétta­blaðinu í dag.

Þar skrifar hún um Lauga­veginn en eins og margir vita eru mjög skiptar skoðanir um alls­herjar­lokun Lauga­vegar fyrir akandi um­ferð allan ársins hring.

Rekstrar­aðilar á Lauga­vegi eru til dæmis margir hverjir mjög mót­fallnir því eins og komið hefur fram. Ýmsar hug­myndir hafa komið upp, til dæmis að Lauga­veginum verði lokað fyrir um­ferð á góð­viðris­dögum yfir sumarið. Aðrir vilja að Lauga­veginum verði lokað til fram­búðar, aðrir að honum verði lokað að hluta og enn aðrir að honum verði alls ekki lokað.

Dóra Björt er tals­kona þess að Lauga­vegurinn verði göngu­gata.

„Sjaldan hefur með jafn skýrum hætti kristallast hug­mynda­fræði­legur á­greiningur meiri­hlutans og minni­hlutans í borgar­stjórn um hvort stefna beri til fram­tíðar með minni losun gróður­húsa­loft­tegunda, aukinni sam­keppnis­hæfni og meira val­frelsi fyrir betri, skemmti­legri og manneskju­legri borg eða hvort grípa beri með sveittum krumlum for­tíðar um visnandi svart/hvíta í­mynd sam­fé­lags þar sem hug­myndin um einka­bílinn sem helsta kenni­merki sjálf­stæðisins fær að hjakka á­fram í sama subbu­lega bíl­farinu,“ segir Dóra Björt.

Hún segist mjög á­nægð með það að borgar­búar skyldu velja nú­tíma­lega fram­tíðar­sýn þar sem lifandi og opið sam­fé­lag fær að blómstra. Hún sendir svo skýr skila­boð til þeirra sem stoppa hana á förnum vegi og biðja hana að laga Lauga­veginn.

„Við þá herra­menn sem stoppa mig á förnum vegi, hvort sem það er í raun­heimum eða á Inter­netinu, og biðja mig um að „laga Lauga­veginn“ og eru þar með að veita sína stuðnings­yfir­lýsingu við hina fyrr­nefndu visnandi og fúnandi í­mynd svo að bíllinn þeirra njóti á­fram þeirra full­komnu for­réttinda sem hann og þeir hafa alltaf notið undir stjórn Sjálf­stæðis­flokksins vil ég segja þetta: Ég er að laga Lauga­veginn. Með því að gera hann að göngu­götu.“