Doktors­rit­gerð um vímu­efna­röskun: Börnin gleymast

Vímu­efna­með­ferð þarf að vera langtum fjöl­þættari og heild­stæðari en al­mennt hefur tíðkast og tengjast allri fjöl­skyldunni í stað þess að ein­blína að­eins á sjúk­linginn og eftir at­vikum maka hans.

Þetta er á meðal helstu niður­staðna doktors­rit­gerðar Jónu Margrétar Ólafs­dóttur í fé­lags­ráð­gjöf við Há­skóla Ís­lands og Há­skóla Lapp­lands sem hún varði á dögunum, en hún reifar inn­tak hennar í frétta­þættinum 21 á Hring­braut í kvöld.

Jóna Margrét varði átta árum í rann­sókn sína á á­hrifum vímu­efna­röskunar á fjöl­skyldu­líf fólks – og segir að tvennt hafi komið henni helst á ó­vart, hvað aðrir fjöl­skyldu­með­limir en sjúk­lingurinn sjálfur séu út­settir fyrir öðrum sjúk­dómum á borð við kvíða og þung­lyndi og hvað vímu­efna­röskun innan einnar og sömu fjöl­skyldunnar hafi mikil og af­drifa­rík á­hrif á börnin, ekki síst syst­kini, í þeim til­vikum þegar eitt barnanna á heimilinu á við vímu­efna­röskun að stríða.

Þá þrói syst­kini þess gjarnan með sér djúp­stætt hatur og ó­beit á þeim sem því finnst vera að bregðast for­eldrum sínum í­trekað með líkams­meiðingum, skemmdum, hnupli og upp­námi heimilis­lífsins – og þessi and­legi baggi fylgi unga fólkinu inn full­orðins­árin án þess að það vinni nokkru sinni úr til­finninga­ó­reiðunni.

Krakkar sem upp­lifi þennan vanda syst­kina sinna falli einatt í skuggann á heimilinu, for­eldrarnir hafi ekki tíma til að sýna þeim at­hygli – og af­leiðingin sé flókið haturs­sam­band við veika syst­kinið sem sjaldnast sé tekið á fyrr en um seinan.