Dökkir litir, einfaldleiki og tímalaus hönnun þar sem fagurfræðin og notagildið fer vel saman í draumaeldhúsinu

Magnús Ólafsson og kona hans keyptu sér raðhús í Reykjanesbæ og endurnýjuðu það hátt og lágt árið 2016 með aðstoð Berglindar Berndsen innanhússarkitekts sem hannaði eldhúsið og veiti ráðgjöf við hönnun á fleiri rýmum meðal annars baðherbergjum, innréttingum, skápum svo fátt sé nefnt. Einnig fengu þau Arnar Gauta Sverrisson innanhúshönnuð til að aðstoða við að stílsera heimilið með glæsilegri útkomu. Sjöfn heimsækir Magnús í þeirra stóglæsilega raðhús, sem er á tveimur hæðum og fær innsýn í heimilisstílinn, hönnunina og lífið í Reykjanesbæ. 

Dökkir litir, einfaldleiki og tímaleysi í hönnuninni einkenna heimilið  þar sem fagurfræðin og notagildið fer vel saman.  „Þegar velja á efnivið í eyju eða borðplötur eldhúsins á ekki að spara,“ segir Magnús og er afar ánægður með hversu vel til tókst við hönnunina á draumaeldhúsinu. Magnús valdi að hafa granít með leðuráferð í eyjunni og útkoman er hin glæsilegasta auk þess sem granítið þolir allt.  Að sögn Magnúsar leggur Berglind mikið upp úr heildarmyndinni og segir að þegar kemur að hönnun eldhúsa sé vert að láta notagildið og fagurfræðina spila saman sem er raunin með útkomuna á hönnun eldhússins  á heimilinu.  Einfaldleikinn og tímaleysi er hinn fullkomni grunnur að efnisvali að mati Berglindar sem skín í gegn á þessu fallega heimili.  Sjón er svo sannarlega sögu ríkari. Missið ekki af áhugaverðu innliti í kvöld.

Þátturinn Fasteignir & Heimili verður á dagskrá í kvöld klukkan 20.30 og aftur klukkan 22.30 og jafnan ferskur, fjölbreyttur og með persónulegum blæ.