Deilt um ný lög um hlutabótaleiðina og uppsagnargreiðslur

Helga Vala Helgadóttir, formaður Velferðarnefndar frá Samfylkingu og Vilhjálmur Árnason í sömu nefnd frá Sjálfstæðisflokki tókust á um ný lög um ríkisstuðning til einstaklinga og fyrirtækja vegna Covid kreppunnar. Þau mæta í þáttinn 21 til Lindu Blöndal í kvöld, fimmtudag.

Hlutastarfaleið hefur verið framlengd fram á haust í nýsamþykktu frumvarpi ríkisstjórnarinnar og samþykkt voru einnig ný lög um ríkisstyrki til fyrirtækja til að greiða uppsagnarfresti. Fyrra úrræðið viðheldur ráðningarsambandi og dregur úr launakostnaði fyrirtækisins og í því felst réttur launamanns til atvinnuleysisbóta á móti skertum launum. Seinna úrræðið snýr að því að fólki er sagt upp og ríkið greiðir uppsagnarfrestinn fyrir fyrirtækin, þó upp að tilteknu marki eða um 80 prósent af launum.

Horfið frá áherslu á vernd ráðaningarsambands

Helga Vala telur að með þessu sé verið að taka áhersluna af því að vernda ráðningarsamband í að hvetja til uppsagna. Betur hefði farið á því að framlengja hlutabótaleiðina í eitt ár, líkt og tíðkast í sumum löndum í kringum okkar, að hennar sögn og veita svigrúm til að nýta starfskrafta meira en 25 prósent starfshlutfall segði til um.

Lífsnauðsyn að fá uppsagnargreiðslur

Vilhjálmur segir að með lögum um uppsagnargreiðslur úr ríkissjóði sé verið að gera fyrirtækjum enn frekar kleift að lifa af og í þeim sé líka sagt að starfsfólki sem sagt hefur verið upp eigi að hafa forgang að störfum, verði þau til aftur þegar efnhagaslífið hressist. Þar að auki séu settar harðari kröfur til fyrirtækja sem vilja fara þá leið. Helga Vala bendir á að ekkert tryggi að starfsfólk fái vinnu sína aftur en Vilhjálmur segir á móti að það fái hana örugglega ekki, fari fyrirtækin í þrot.

Um hlutastarfaleiðina - reynslan og spár

Þann 20. mars sl. var hlutastarfaleiðin lögfest. Í mars og apríl voru 11,6 milljarðar greiddir úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna úrræðisins.

Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar hafa um 37 þúsund launamenn og 6.400 vinnuveitendur nýtt úrræði stjórnvalda vegna minnkaðs starfshlutfalls. Þetta er mun meiri fjöldi en gert var ráð fyrir þegar úrræðið var upphaflega kynnt á Alþingi með frumvarpi.

Vinnumálastofnun gerir nú ráð fyrir að útgreiðslur vegna hlutabóta geti orðið nærri 31 milljarður króna í ár.

Ríkisendurskoðandi gerði frumkvæðisúttekt á hlutabótaleiðinni og gagnrýndi þar m.a. að eftirlit með greiðslu bóta hefði verið verulega ábótavant. Í nýjum lögum hefur því nú verið bætt við að refsivert sé að misnota styrkina