Davíð Þór: „Það gerir ekki lítið úr neyð Ís­lendinga að hjálpa út­lendingum“ – Hvar er mann­úðin?

11. mars 2020
10:27
Fréttir & pistlar

„Það er smánar­blettur á sam­fé­lagi okkar hve margir eru al­ger­lega skildir út undan þegar kemur að skiptingu auð­æfanna sem of­gnótt er af hér á landi. Við búum í landi þar sem allir eiga að geta haft það gott.“

Þetta sagði Davíð Þór Jóns­son, prestur í Laugar­nes­kirkju, í prédikun sinni síðast­liðinn sunnu­dag. Þar ræddi Davíð meðal annars um við­horf Ís­lendinga þegar að­stoð við út­lendinga ber á góma. Davíð Þór var ó­myrkur í máli í prédikun sinni.

„Eigum við ekki að hjálpa þeim fyrst?“

„Hvað eigum við að vera að hjálpa annarra þjóða fólki þegar hér á meðal okkar er fólk með ís­lenskan ríkis­borgara­rétt sem þarf á hjálp að halda? Hvað erum við að skjóta skjóls­húsi yfir út­lensk börn á flótta þegar í sam­fé­lagi okkar eru ís­lensk börn sem búa við fá­tækt? Eigum við ekki að hjálpa þeim fyrst? Auð­vitað eigum við að hjálpa þeim,“ sagði Davíð Þór og bætti við að á Ís­landi ættu allir að geta haft það gott.

„En ör­yrkinn sem er að reyna að draga fram lífið á bótunum sínum og þarf að­stoð frá kirkjunni til að leysa út lyfin sín þegar ó­væntur tann­lækna­kostnaður setur allan hans knappa fjár­hag úr skorðum … hvað gagnast það honum að senda börn á flótta úr landi? Það eru ekki þau sem eru að hafa af honum lyfin.“

Íslandsmet í launahækkunum

Davíð Þór sagði að sá mann­úðar­skortur sem við sýnum þeim verst stöddu skili sér ekki í aukinni mann­úð til þeirra sem næst­verst hafa það. Hann spurði svo hvaðan sú á­rátta kæmi, að raða þeim sem eru hjálpar þurfi upp í for­gangs­lista á hinum og þessum for­sendum, til dæmis ríkis­fangi.

„Er mann­úð okkar svona tak­mörkuð auð­lind? Er ekki nóg af henni til skiptanna? Er hjálpin sem við erum af­lögu­fær um af svo skornum skammti að hún geti ekki staðið öllum til boða sem á henni þurfa að halda heldur að­eins þeim sem mest þurfa á henni að halda og hinir verði bara að sætta sig við að vera ekki númer eitt í röðinni? Ef svo er … af hverju eru þá þeir sem mest þurfa á henni að halda ekki að fá hana? Það er nefni­lega mjög góð að­ferð til að komast upp með að gera ekki neitt að eyða öllum tímanum í að rífast um það hvað eigi að gera.“

Davíð sagði síðar í prédikun sinni að það „gerði ekki lítið úr neyð Ís­lendinga að hjálpa út­lendingum.“ Það væri nefni­lega alls engin á­vísun á betri kjör fyrir tekju­lágar ís­lenskar barna­fjöl­skyldur, aldraða eða ör­yrkja að vísa út­lenskum barna­fjöl­skyldum á ver­gang í löndum þar sem neyðar­á­stand ríkir vegna flótta­manna­vanda. „Það eru ekki þeir sem verst hafa það sem bera á­byrgð á stöðu þeirra sem hafa það næst­verst. Það gera þeir sem best hafa það og eru um þessar mundir að setja hvert Ís­lands­metið af öðru í launa­hækkunum til sjálfra sín.“

Grát­legast að þetta kostar ekkert

Hann kom svo inn á það að það vantar mann­skap hér á landi. Skortur sé á vinnu­afli til að sinna verst launuðu og van­þakk­látustu störfunum sem Ís­lendingar fást varla í.

„En fólkinu sem hingað kemur á eigin vegum og vill setjast hér að og verða nýtir borgarar, því vísum við um­svifa­laust úr landi, jafn­vel til ríkja sem Rauði krossinn varar við að fólk sé sent til vegna á­standsins þar. Þessa vinnu viljum við frekar kaupa af út­lendingum í gegn um starfs­manna­leigur sem borga þeim smánar­kaup og við þurfum enga á­byrgð að bera á þeim, ekki að gefa þeim kenni­tölu eða nein þeirra réttinda sem því fylgja að vera borgari hér á landi. Við viljum ekki að börnin þeirra njóti sama ung­barna­eftir­lits og börnin okkar, við viljum ekki að þau gangi í skólana okkar, við viljum ekki þurfa að borga sjúkra­kostnaðinn af þeim þegar þeir veikjast, alls ekki að greiða þeim ör­orku­bætur ef þeir slasast al­var­lega við vinnu sína hér á landi og síst af öllu að borga þeim eftir­laun eftir vel unnin störf í þágu sam­fé­lags okkar í ára­raðir.“

Davíð sagði svo að það grát­legasta við þetta væri að það kostaði ekki neitt að taka við þessu fólki. Hverri krónu sem varið er í að auð­velda fólki að koma sér hér fyrir og verða virkir þátt­tak­endur í sam­fé­lagi okkar skili sér marg­falt til baka. Ekki bara í mann­auðinum heldur bein­línis í krónum og aurum í formi tekju- og neyslu­skatta.

„Auð­vitað getum við ekki bjargað öllum. En það eru ekki heldur allir að biðja okkur að bjarga sér. Ef rúta full af börnum færi sjóinn og ljóst væri að við gætum ekki bjargað þeim öllum, myndum við þá sitja að­gerðar­laus og bjarga engu þeirra? Eða myndum við bjarga eins mörgum og við getum? Það er ná­kvæm­lega staðan sem við erum í núna. Enginn getur bjargað öllum. En allir geta bjargað ein­hverjum. Og ef allir myndu bjarga eins mörgum og þeir geta yrði öllum bjargað.“

Hér má lesa prédikun Davíðs Þórs í heild sinni.