Sóknarpresturinn Davíð Þór Jónsson líkir Katrínu Jakobsdóttur við farísea í nýrri færslu á Facebook, þar sem hann svarar viðbrögðum hennar við umdeildri færslu sinni.
Í gær vakti talsverða athygli þegar Davíð sagði að það væri sérstakur staður sé í helvíti fyrir fólk sem selji sálu sína fyrir völd og vegtyllur, vegna fyrirhugaðra brottvísana. Katrín svaraði þeim í kjölfarið og sagði ummælin dæma sig sjálf: „Og ég verð að segja það að mér finnst ummæli Davíðs Þórs dæma sig algjörlega sjálf.“
Davíð lætur sér fátt um finnast um þetta svar Katrínar, að því er lesa má úr nýjustu Facebook færslu hans. Hann virðist setja sjálfan sig í hlutverk Jesús Krists og Katrínu í hlutverk Farísea. Færslan er svohljóðandi:
„Jesús: Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Höggormar og nöðrukyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð sem úthellt hefur verið á jörðinni,“ skrifar Davíð Þór og bætir við:
„Farísei: Þessi orð dæma sig sjálf.“