Davíð segir plottið augljóst

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir augljóst að borgaryfirvöld séu að nota svifrykið sem afsökun fyrir því að lækka hámarkshraða svo mjög að það valdi ökumönnum verulegum óþægindum.

Tilgangurinn sé væntanlega sá að auka umferðarteppur og að fleiri hætti að nota bílinn sinn. Þetta virðist vera helsta sameiginlega baráttumál núverandi borgarstjórnarmeirihluta.

Þetta segir í leiðara Morgunblaðsins í dag en gera má ráð fyrir að þar haldi Davíð Oddsson, fyrrverandi borgarstjóri, á penna.

Minni hraði, minna svifryk?

Það útspil meirihlutans í borgarstjórn að ætla að lækka hámarkshraða úr 50 kílómetrum á klukkustund í 30 kílómetra hefur mælst misjafnlega fyrir. Vill meirihlutinn meina, þar á meðal Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurbjörg Ósk Haraldsdóttir, Pírati og formaður skipulags- og samgönguráðs, að minni hraði þýði minni svifryksmengun.

Davíð vísar í ákafa Sigurborgar um málið sem hún birti á Twitter á dögunum. „Fengum kynningu í skipulags- og samgönguráði á nýrri skýrslu: „Áhrif hraða á mengun vegna umferðar“ Niðurstaðan. Nagladekk skapa 30 sinnum meira svifryk en ónegld dekk. Gæti ekki verið skýrara.“

Segir Davíð að ákafi píratans vegna þessarar niðurstöðu hafi verið mikill eins og sást á fleiri færslum, meðal annars þessari: „Og laaaaaang skilvirkasta leiðin til að minnka svifryk er að: - minnka notkun nagladekkja - lækka hámarkshraða - minnka bílaumferð“.“

Bent er á að Dagur B. Eggertsson hafi fylgt þessum áköfu færslum eftir með fréttapósti þar sem lækkun hraða innan borgarmarkanna var sögð geta dregið úr svifryki um allt að 40% ef hraði yrði færður niður í 30 kílómetra á klukkustund.

Sópa og þvo götur

„Þessi skrif tveggja æðstu manna í skipulagsmálum og stjórn borgarinnar eru þess eðlis að þó að þau séu fjarstæðukennd og beri vott um öfgafulla andstöðu við að fólk aki um á eigin bílum þá verður ekki fram hjá þeim litið. Það er einmitt vegna stöðu þeirra sem um ræðir en ekki síður þegar horft er til þess að þau hafa sýnt að þau láta verkin tala þegar kemur að því að þrengja að einkabílnum og tefja fólk sem velur þann ferðamáta, sem vel að merkja er langstærstur hluti borgarbúa.“

Telur Davíð að svifrykið sé einungis átylla fyrir því að lækka hámarkshraða. Segir Davíð að þó að vissulega væri gott að losna við svifrykið, eða að minnsta kosti draga úr því, séu fáir sem láta sér detta í hug að fara með hraða á helstu götum niður í 30 kílómetra á klukkustund.

„Flestum kæmi væntanlega frekar til hugar að sópa og þvo göturnar, en það er nokkuð sem borgarstjórnarmeirihlutinn gerir nánast aldrei. Þessi sóðaskapur verður til þess að rykið safnast upp á götunum, einkum út til kantanna, og þyrlast upp þegar bílar aka um. Þetta ryk verður til með ýmsum hætti, vegna slits á götum en einnig af öðrum ástæðum, meðal annars vegna sandfoks, sem að hluta til kemur frá byggingarsvæðum innan borgarmarkanna.“

Stóru bílarnir þyrla upp rykinu

Davíð segir að allir þeir sem hafa ekið á eftir stórum bílum í borginni viti að það eru einkum þeir sem þyrla rykinu upp. Þetta er meðal annars vegna þess að þeir eru þyngri og á stærri dekkjum en einnig vegna þess að þeir eru breiðari og auka í rykinu sem safnast hefur upp yst á götunum.

„Fólksbílarnir þyrla mun minna ryki upp, hvort sem þeir aka tuttugu kílómetrum á klukkustund hraðar eða hægar. Annað sem máli skiptir, og fram kemur í frétt á bls. 2 í blaðinu í dag, er að hver stór vörubíll slítur vegum á við 10.000 fólksbíla. Þetta er afar athyglisvert því það sýnir að ekki aðeins þyrla stóru bílarnir upp miklu meira ryki, heldur slíta þeir götunum 10.000 sinnum meira en hver fólksbíll.“

Markmiðið að sem flestir gefist upp

Segir Davíð að draga mætti þá ályktun að vilji borgaryfirvöld virkilega ná árangri í baráttunni við svifrykið ættu þau, auk þess að þrífa göturnar sómasamlega, að draga úr umferð stórra bíla.

„Ein augljós leið til þess væri að nota minni strætisvagna, sem væri hægur vandi á flestum leiðum og lungann úr deginum, enda vagnarnir stórir og ekki vel nýttir. Þess í stað hafa borgaryfirvöld ákveðið að fara þá leið að stækka vagnana enn frekar með svokallaðri borgarlínu. Þetta sýnir glöggt að engin alvara er á bak við það að lækka hraða til að minnka svifryk. Ætlunin er aðeins að flækjast enn frekar fyrir umferð fólksbíla í þeirri von að sem flestir gefist upp á að ferðast á eigin bílum.“