Davíð segir Íslendinga telja sig búa í öruggu landi: „Það gæti þó verið að breytast hratt“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er fjallað um hryðjuverk. Leiðari blaðsins er ekki stílaður á neinn tiltekinn einstakling, en oft eru líkur leiddar að því að það sé ritstjóri og ábyrgðarmaður blaðsins, Davíð Oddsson, sem haldi á pennanum.

Í dag er fjallað um glæpinn sem farminn var í Ósló um helgina, þar sem tveir létust, en yfirvöld telja að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Síðan er því velt upp hvort slíkar hörmungar gætu átt sér stað á Íslandi.

Vísað er í orð Runólfs Þórhallssonar aðstoðaryfirlögregluþjón í greiningardeild ríkislögreglustjóra, en hann sagði hættu á hryðjuverkum hér á landi minni en í nágrannalöndunum.

„Runólfur sagði að hætta hér á landi væri talin minni en í Noregi og Danmörku, meðal annars vegna þess að hér væru ekki menn sem hefðu farið til að berjast með hryðjuverkasamtökum í fjarlægum löndum og hefðu svo snúið heim aftur.“

Þrátt fyrir það segir að hættan væri engu að síður fyrir hendi og er það tengt við rannsóknarheimildir lögreglu.

„Hættan væri þó fyrir hendi en íslenska lögreglan hefði minni rannsóknarheimildir en til dæmis norska lögreglan. Hann sagði að væru heimildir lögreglunnar hér á landi rýmri væri hægt að meta stöðuna betur og sagðist telja nauðsynlegt að ræða heimildir lögreglunnar í breyttum heimi.“

Í lok leiðarans segir Davíð að öryggið sem Íslendingar finni fyrir ekki endilega eins mikið og það hafi verið á árum áður vegna þess að heimurinn sé að breytast.

„Íslendingum finnst þeir búa í öruggu landi og þannig hefur það verið. Það gæti þó verið að breytast hratt og engin trygging er fyrir því að við verðum áfram laus við óværu eins og þá sem frændþjóðir okkar hafa mátt lifa við. Að þessu verða stjórnvöld að huga og hluti af því er að meta hvaða heimildir lögreglan hefur til að fylgjast með mögulegum hryðjuverkamönnum. Slíkar heimildir eru vitaskuld engin trygging fyrir því að hægt verði að stöðva ódæðismennina fyrirfram, en þær auka þó líkurnar á að einhverjir þeirra náist í tíma.“