Davíð minnist ernu og geirs: „ég hafði alltaf þóst vita að erna væri heiðurskona“

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins minnist Ernu Finnsdóttur í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. Erna lést á Hjúkr­un­ar­heim­il­inu Sól­túni 95 ára að aldri. Erna lauk stúd­ents­prófi frá mála­deild Mennta­skól­ans í Reykja­vík 17. júní 1944 og var því 75 ára stúd­ent á þessu ári. Hún stundaði jafn­framt pí­anónám.

Þá giftist Erna Geir Hall­gríms­syni þann 6. júlí 1947. Geir varð síðar borgarstjóri, ráðherra og seðlabankastjóri. Geir var einnig í stjórn Árvak­urs hf., út­gef­anda Morg­un­blaðsins og stjórn­ar formaður um skeið. Davíð segir um Ernu og Geir:

„Í gær bárust þær fréttir að Erna Finnsdóttir, ekkja Geirs Hallgrímssonar, væri látin. Hún varð 95 ára gömul. Í æviágripi sem bréfritari skrifaði árið 1994 og birt var í Andvara segir: „Geir Hallgrímsson gekk að eiga Ernu Finnsdóttur, bekkjarsystur sína úr Menntaskólanum í Reykjavík, í kapellu Háskóla Íslands 6. júlí 1948, skömmu eftir að hann lauk lagaprófi. Þau höfðu vitaskuld þekkst í menntaskólanum, en kynnst betur eftir stúdentsprófið.“

Geir og Erna héldu vestur á bóginn árið 1948. Geir hóf framhaldsnám í lögfræði og hagfræði við Harvardháskóla í Bandaríkjunum, en Erna sótti tíma í píanóleik. Davíð segir:

„Harvardháskóli var þá sem nú einhver virtasti háskóli í Bandaríkjunum. Geir hafði mikinn áhuga á hagfræði og stóð hugur hans til að sökkva sér í þau fræði eftir laganámið, en þá veiktist faðir hans, Hallgrímur Benediktsson, svo að þau Erna ákváðu að snúa heim vorið 1949.“

Í lok æviágripsins segir:

„Best leið Geir Hallgrímssyni þó í skauti fjölskyldu sinnar. Hann var mjög heimakær maður og frændrækinn [...] Bréfritari var einn þeirra sem nutu gestrisni þeirra hjóna en hitti þau þó oftar á öðrum vettvangi. Mönnum gat ekki annað en fallið vel við Ernu Finnsdóttur. Hún var hæglát og fjarri því að vera framhleypin, en jafnan alúðleg og hlý.“

Geir Hallgrímsson féll frá 1. september 1990 og lifði Erna því mann sinn í hart nær þrjá áratugi. Davíð segir að lokum: „Fundum okkar Ernu bar alloft saman á fyrrihluta þess skeiðs en tilefnum þess fækkaði síðar eins og verða vill. En gott tækifæri gafst til að endurnýja góð kynni þegar Ingibjörg, móðir bréfritara, gerði hið prýðilega hús Sóltún að sínu seinasta heimili. Þar var Erna Finnsdóttir fyrir og þótt Ingibjörg hefði hitt hana stuttlega nokkrum sinnum áður gafst nú tækifæri til að kynnast henni betur. Um hana sagði hún:

„Ég hafði alltaf þóst vita að Erna væri heiðurskona, og prýðileg í alla staði. Það hefur svo sannarlega reynst rétt mat.“