Dásamlega ljúffeng Tortellini spjót

Það þarf sannarlega ekki alltaf að vera flókið til að vera gott, fallegt og fullkomið fyrir ýmis tilefni og það veit Berglind okkar Hreiðars köku- og matarbloggari með meiru hjá Gotterí og gersemar. Hún er einstaklega hugmyndarík að framreiða einfalda og fljótlega rétti sem bragð er af og hægt er að leika sem með á ýmsa vegu. „Þessi tortellini spjót með pestó, tómötum og mozzarella eru snilldar hugmynd sem forréttur, smáréttur á hlaðborði, í nestisboxið eða það sem ykkur dettur í hug. Að nota ferskt pasta flýtir enn frekar fyrir svo þessi spjót geta verið tilbúin á örskotsstundu,“ segi Berglind og nýtur þess að brjóta hverdagsleikann með smáréttum.

Hér fyrir neðan getið þið séð hversu einfalt það er fyrir fjölskyldur, sem og aðra að útbúa þessi ljúffengu spjót.

M&H Tortillini spjót 3.jpg

Ótrúlega ljúffeng þessa dásamlegu Tortellini spjót og falleg í framreiðslu./Ljósmyndir Berglind Hreiðars.

Tortellini spjót

Um 30 stykki

  • 250 g ferskt osta tortellini pasta
  • 2 msk. Sacla Wild Garlic pestó eða annað pestó að eigin vali
  • Um 30 kirsuberjatómatar
  • Um 30 mozzarellakúlur
  • Balsamik gljái
  • Um 30 tréspjót
  1. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum og látið þá kalt vatn renna yfir pastað til að það eldist ekki frekar.
  2. Setjið pestó saman við og vefjið varlega saman með sleif.
  3. Þræðið næst upp á spjót; Tortellini, kirsuberjatómat og mozzarellakúlu, endurtakið þar til hráefnið er búið.
  4. Setjið að lokum smá balsamik gljáa yfir og berið fram.

Eins og Berglind bendir réttilega á að þá eru til svo margar góðar bragðtegundir af pestó að við hvetjum ykkur eindregið til að fara út fyrir hefðbundið basil (grænt) eða sólþurrkaða tómata (rautt) því það er svo gaman að breyta til og prófa ný brögð. Njótið vel.

*Allt hráefnið fæst í Bónus.

M&H Tortlini spjót 2.jpg