Danir varaðir við hættu­legri jurt – Fólk hefur fengið slæm sár

Dæmi eru um að grun­lausir í­búar Dan­merkur hafi fengið slæm bruna­sár eftir að hafa komist í snertingu við jurt eina sem farin er að dreifa veru­lega úr sér í Dan­mörku.

Um er að ræða gular nípur (d. gule pastinak) sem vaxa villtar í Dan­mörku en eins og flestir vita er um að ræða mat­jurt sem er ná­skyld gul­rótum. Nípu­rætur þykja herra­manns­matur en það borgar sig að fara að öllu með gát þegar sjálf plantan er með­höndluð enda gefur hún frá sér efni sem getur valdið slæmum sárum á húð.

Fjöl­miðlar í Dan­mörku hafa að undan­förnu fjallað nokkuð um út­breiðslu jurtarinnar og segir Jens Redd­er­sen, þjóð­garðs­vörður í Mols Bjer­ge, að hún hafi dreift sér hægt og ró­lega á undan­förnum árum. „Hún er út­breiddust á austur­hluta Jót­lands en hún er hér og þar í öllum lands­hlutum,“ segir hann við TV2.

Það getur verið sér­stak­lega vara­samt að vera lengi í beinu sólar­ljósi ef eitrið kemst í snertingu við húðina. Eru dæmi þess að ein­staklingar hafi fengið slæmar blöðrur og sár sem líkja mætti við af­leiðingar annars stigs bruna. Jurtin er auð­þekkjan­leg á gulum blómum en komist ein­staklingar í snertingu við eitrið þarf að skola húð­flötinn vand­lega og forðast sólar­ljós í tvo sólar­hringa.

Jens segir að Danir þurfi ekki að ör­vænta þó plantan sé farin að dreifa sér um Dan­mörku. Þó sé gott að þekkja jurtina og helst forðast að komast í beina snertingu við hana.

Á Vísinda­vefnum er fjallað um hættu­legar jurtir og er einna helst bent á risa­hvönnina í því sam­hengi enda er hún nokkuð þekkt hér á landi. Safinn úr þeim getur valdið ljósertiexemi líkt og jurtin sem fjallað er um hér að ofan. Þá er bent á aðrar plöntu­tegundir sem geta gert húðina við­kvæma. Má þar nefna hvannir, nípur, stöngla og blöð gul­róta, stein­selju og ýmsar sól­eyjar svo dæmi séu tekin.

Myndin hér að ofan er af vef BT í Danmörku en í umfjölluninni kemur fram að nemandi við skóla einn á Sjálandi hafi fengið mjög slæm sár á höndina eftir að hafa snert jurtina.