Daníel jarðsunginn í dag: „Síðustu mánuði lífs þíns gekk allt svo vel“

Daníel Eiríksson, sem talinn er hafa látist þegar bifreið var ekið á hann í Kórahverfi í Kópavogi á föstudaginn langa, verður jarðsunginn frá Fossvogskirkju í dag. Daníel var 30 ára þegar hann lést, fæddur 19. október árið 1990.

Einn maður var úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins, en hann sætir nú farbanni til 7. maí næstkomandi. Sagði maðurinn að um slys hefði verið að ræða en Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sagði við mbl.is að málið væri ekki rannsakað sem slys heldur manndráp. Málið er enn í rannsókn lögreglu eftir því sem næst verður komist.

Foreldrar Daníels eru hjónin Kristín Kui Rim og Eiríkur Sigurbjörnsson, stofnandi sjónvarpsstöðvarinnar Omega. Þau minnast Daníels með fallegum orðum í Morgunblaðinu í dag.

„Elsku sonur okkar Daníel, við söknum þín sárt. Þú varst okkar vinur. Þú varst okkur svo nátengdur. Við leituðum oft ráða hjá þér. Þú varst svo hreinskilinn og við gátum alltaf treyst því að þitt álit væri góð leiðsögn. Síðustu mánuði lífs þíns gekk allt svo vel. Það voru svo bjartir tímar framundan. Þú hafðir mörg plön og stóra hugsjón um góðan framgang í mörgum málum. Þú varst ákveðinn í því, að þér myndi vegna vel í lífinu.“

Í greininni kemur fram að Daníel hafi nefnt það að hann ætlaði að reisa minnismerki um föður sinn til að heiðra hann. Þá hafi móðir hans verið honum sérstaklega hjartfólgin og hún ekki séð sólina fyrir honum. „Já, Daníel elskaði okkur foreldra sína og systkini heitt.“

Útför Daníels fer fram frá Fossvogskirkju í dag klukkan 13. Streymt verður frá útförinni á: http://www.sonik.is/daniel