Dagur vill ekki stytta opnunartíma skemmtistaða

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er þeirrar skoðunar að ekki sé skynsamlegt að stytta opnunartíma skemmtistaða í miðborg Reykjavíkur.

Opnunartíminn var styttur vegna sóttvarnaaðgerða í faraldrinum og hafa sumir kallað eftir því að styttri opnunartími sé kominn til að vera. Því eru langt því frá allir sammála og þá sérstaklega rekstraraðilar skemmtistaða í miðborginni.

„Hættan er sú að ef styttri opnunartími verður viðvarandi þegar samkomutakmörkunum sleppir færist skemmtanahaldið einfaldlega út á stræti og torg og í íbúðahverfi og heimahús af því barir og veitingastaðir loka allir í einu,“ segir Dagur í samtali við Fréttablaðið í dag.

Vísar hann til stöðunnar fyrir tuttugu árum áður en opnunartími var gefinn frjálsari.

„Sagan kennir okkur að það þýðir ekki endilega aukið öryggi, færri afbrot eða meira næði að hafa opnunartímann styttri. Ég myndi hins vegar fagna því að fólk byrji fyrr og fari þá líka fyrr heim eins og hefur verið áberandi að undanförnu, það verði nýr partur af skemmtanamenningunni. Vonandi er sú þróun komin til að vera,“ segir Dagur.